„Í dag er ég þakklátur“

Minningarvottur um þá sem létust í Súðavík fyrir 25 árum.
Minningarvottur um þá sem létust í Súðavík fyrir 25 árum. Ljósmynd/Aðsend

„Í dag er ég þakklátur. Ég er þakklátur fyrir að ekki fór verr í gær, ég er þakklátur fyrir þær ótrúlegu tækni- og þekkingarframfarir sem hafa átt sér stað hér á landi sem snúa að flóðum, varnargörðum o.fl., ég er þakklátur fyrir varðskipið Þór og þyrlu Landhelgisgæslunnar og þær mögnuðu áhafnir sem standa þar vaktina og að lokum er ég þakklátur fyrir þær ótrúlegu björgunarsveitir sem við eigum.“

Þetta skrifar Tomasz Þór Veruson á Facebook. Tomasz var á ellefta aldursári og nýfluttur til Súðavíkur þegar snjóflóðið, sem banaði 14 manns, gleypti hann með húð og hári fyrir sléttum 25 árum.

Fannst á lífi eftir 24 tíma

Hann segir ótrúlegt að hugsa til þess að snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði hafi fallið á svipuðum stað og fyrir 25 árum á svipuðum slóðum. Þær hamfarir voru rifjaðar upp í Morgunblaðinu í dag.

„Ég lenti í flóðinu árið 1995 og var síðastur til að finnast eftir 24 tíma. Ég var ekki með meðvitund allan tímann en mestmegnis af tímanum og þaðan koma minningarnar. Þetta sem gerðist í gær var ákveðinn skellur og maður gat að vissu leyti sett sig í aðstæðurnar,“ segir Tomasz í samtali við mbl.is.

Tomasz Þór Veruson lenti í snjóflóðinu í Súðavík fyrir sléttum …
Tomasz Þór Veruson lenti í snjóflóðinu í Súðavík fyrir sléttum 25 árum. Ljósmynd/Aðsend

16. janúar á hverju ári er sérstakur dagur

Hann bjó ásamt móður sinni og tveimur mæðgum í húsi í Súðavík. Af þeim sem bjuggu í húsinu komust einungis Tomasz og móðir hans lífs af.

„Við mamma bjuggum saman og hún bjargaði sér sjálf. Við bjuggum fjögur í húsinu og við mæðgin komumst lífs af en hinar mæðgurnar féllu því miður frá,“ rifjar hann upp. Hann segir 16. janúar á hverju ári vera skrýtinn dag sem verði ekki auðveldari með tímanum og að atburðirnir í fyrradag hafi ýft upp gömul sár.

„Hann er sérstakur bæði hjá mér og öðrum. Maður finnur alveg fyrir því þegar það nálgast 16. janúar á hverju ári, það er erfitt að lýsa því. Þannig að þetta var kannski svona aukaskellur í andlitið. Þetta hafði svo mikil áhrif, ekki bara á mig heldur allt samfélagið,“ útskýrir Tomasz en bætir við að snjóflóðið á Flateyri hafi að sama skapi dregið hugann frá skelfingunum sem áttu sér stað í Súðavík fyrir 25 árum.

Tengir við margt sem unga stúlkan lýsti

Sem betur fer varð ekki manntjón í snjóflóðunum sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði í fyrradag en fjórtán ára gömul stúlka, Alma Sóley Ericsdóttir Wolf, lenti í því að vera grafin undir snjó í um það bil fjörutíu mínútur þar til björgunarsveitamenn náðu að bjarga henni. Hún lýsti þeirri erfiðu reynslu í viðtali við mbl.is fyrr í kvöld og aðspurður segist Tomasz kannast við ýmislegt sem hún sagði.

„Það er skrýtið að segja það en maður tengir við ótrúlega mörg atriði sem hún kemur inn á. Í hennar tilfelli er magnað að hugsa til þess að þetta hafi farið eins vel og það fór. Ég las í fréttum í dag að það væri verið að tala um kraftaverk og ég er hundrað prósent sammála því.“

„Hún stóð sig ótrúlega vel og kom reynslunni ótrúlega vel til skila,“ bætir hann við að lokum.

mbl.is