Íbúar upplifa að komið hafi „rof í öryggið“

„Mér varð það mjög ljóst eftir að hafa farið á Flateyri í gær að fólk er óttaslegið. Það er ofboðslega skiljanlegt, því að við þekkjum það öll að þegar við erum ekki örugg þá verður maður hræddur, en þegar maður er ekki öruggur heima hjá sér og upplifir að griðastaðnum sé ógnað, þá verður maður mjög hræddur og þá vakna ýmsar mjög skiljanlegar spurningar,“ segir Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í samtali við mbl.is.

Bæjarstjórinn segir að íbúar upplifi að það sé komið „rof í öryggið“ sem ofanflóðavarnir veiti þeim undir snarbröttum fjallshlíðum Vestfjarða, ekki bara á Flateyri og Suðureyri, heldur líka á Ísafirði og víðar. Á Suðureyri sé fólk svo að upplifa „nýja ógn“, sem felist í flóðbylgju af hafi eftir snjóflóð handan fjarðarins.

Íbúafundir strax eftir helgi

Hann segir að boðað verði til íbúafunda bæði á Flateyri og Suðureyri strax eftir helgi til þess að ræða málin við íbúa, en þá ættu sérfræðingar í ofanflóðum að vera búnir að safna gögnum og gera allar nauðsynlegar mælingar til þess að hægt verði að átta sig á því hvað gerðist og hvers vegna það gerðist.

„Við erum með ofanflóðavarnir fyrir ofan næstum hvert einasta þorp hérna á svæðinu og þetta á ekki bara við um Flateyri og Suðureyri, þetta á líka við um önnur þorp, svo ég tali nú ekki um Súðavík þar sem ofboðslega sterkar tilfinningar vakna hjá fólki sem þangað á rætur,“ segir Guðmundur, en í dag eru akkúrat 25 ár liðin frá því að snjóflóðið mikla féll í Súðavík með þeim afleiðingum að fjórtán manns létu lífið.

Flateyri mátti ekki við þessu tjóni

„Ég ætla ekki að reyna að draga upp eitthvað fegurri mynd af því en hún er. Atvinnulíf á Flateyri og sjávarútvegur hefur náttúrulega verið í sárum í ár og áratugi og ef eitthvert bæjarfélag mátti ekki við þessu þá var það sennilega Flateyri. Þarna sópast smábátafloti Flateyringa í burtu í einu flóði í bókstaflegri merkingu, aðkoman var ekki falleg þarna í gær og við hugsum líka hlýtt til þeirra sem hafa þarna orðið fyrir miklu eignatjóni,“ segir bæjarstjórinn, beðinn um að leggja mat á það hvaða áhrif tjónið á bátaflota Flateyrar hafi á atvinnulíf bæjarins.

„Þarna er fótunum sópað undan fyrirtækjum og fólki í sjávarútvegi. Það er grafalvarlegt mál og við þurfum að gefa því líka gaum og svara spurningum hvað það varðar,“ segir bæjarstjórinn.

Nánar er rætt við Guðmund bæjarstjóra í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is