Mengunin í höfninni líklega minni en óttast var í fyrstu

Talið er að mengunin í höfninni sé ekki eins mikil …
Talið er að mengunin í höfninni sé ekki eins mikil og óttast var í fyrstu. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

„Við erum komin með aðeins skýrari mynd af því hversu mikil olía var um borð í bátunum. Það var ekki mikið, heildarmagnið kannski um 5.000 lítrar í öllum þessum sex bátum,“ segir Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafnar, í samtali við mbl.is um mögulegt magn mengunar í Flateyrarhöfn.

Guðmundur var nýkominn aftur til Ísafjarðar ásamt fulltrúa Umhverfisstofnunar þegar mbl.is náði tali af honum. Þau voru á leiðinni til Flateyrar fyrr í kvöld áður en þeim var snúið til baka eftir að hætt var við opnun Flateyrarvegar eftir að snjóflóð féll um fimm kílómetra fyrir utan bæinn.

„Það var okkar verkefni að kortleggja það hversu umfangsmikil mengunin er þarna en við náðum ekki að fara. Varðskipið Þór er við bryggju á Flateyri og þeir hafa verið að skjótast í eitt og eitt verkefni og við höfum verið að fá skýrari mynd af þessu í gegnum þá,“ útskýrir Guðmundur.

„Lítur djöfullega út“

Það er ekki hægt að slá neinu föstu um umfang mengunar í höfninni við Flateyri eins og stendur en Guðmundur telur líklegt að mengunin sé minni en óttast var í fyrstu.

„Þetta lítur náttúrulega djöfullega út með þessa báta sokkna í höfninni en mengunarlega séð þá held ég að hættan sé minni en við óttuðumst.“

Búið er að finna 4.800 lítra olíutank sem fór ofan í höfnina og staðfest hefur verið að í honum voru að hámarki 200 lítrar af olíu. Úrgangsolíutankur er þó enn þá ófundinn en talið er að hann hafi verið tómur þegar snjóflóðið féll.

„Hafnarstarfsmenn fóru á Flateyri í síðustu viku og tóku stöðuna á úrgangsolíutanknum og spilliefnakari og það var tómt. Það hefur ekkert verið róið neitt eftir það þannig að það má gera ráð fyrir því að það hafi verið óbreytt,“ bætir Guðmundur við að lokum. Hann ætlar að reyna fara á Flateyri aftur á morgun til að skoða stöðuna með eigin augum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert