Samið við köfunarþjónustu vegna sokkinna báta

Sex bátar eyðilögðust í höfninni á Flateyri.
Sex bátar eyðilögðust í höfninni á Flateyri. Ljósmynd Steinunn G. Einarsdóttir

Sérfræðingur frá Umhverfisstofnun sem mun hafa yfirumsjón með mengunarmálum í höfninni á Flateyri er á leiðinni vestur.

„Umhverfisstofnun og umhverfisfulltrúi Ísafjarðarbæjar munu tryggja að mengunarvarnir séu til staðar og hafa eftirlit með því,“ segir Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar, og verður verkefnið unnið í samstarfi við höfnina.

Hann segir ljóst að einhver díselolía fór í höfnina. „Ef það er mikið magn er það lengur að brotna niður í umhverfinu,“ greinir hann frá.

Ljósmynd Steinunn G. Einarsdóttir

Samið við köfunarþjónustu 

Tryggingafélög eigenda bátanna sem eyðilögðust í öðru snjóflóðanna í bænum hafa samið við köfunarþjónustu um að ná bátunum á flot og verið er að tína saman tæki og tól vegna þess.

„Vonandi höfum við einhverja heildarmynd eftir daginn hvernig og hvenær við getum hafist handa í því,“ segir Guðmundur.

Vegurinn á milli Ísafjarðar og Flateyrar er enn lokaður og ekkert gerist fyrr en hann hefur verið opnaður. Mokstur er í biðstöðu vegna snjóflóðahættu. „Það er gríðarlega mikill krapi í höfninni og erfitt að athafna sig eins og er. Það er fjögurra gráðu hiti núna en ég geri mér enga grein fyrir því hvenær við getum búið okkur til aðstöðu til að geta farið að gera eitthvað í höfninni,“ segir Guðmundur.

mbl.is