Bæði fólk og ferfætlingar björguðust

Eyþór ásamt kettinum sem fannst sofandi í einu barnaherbergi hússins …
Eyþór ásamt kettinum sem fannst sofandi í einu barnaherbergi hússins í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Þeir sáust á hlaupum stuttu eftir flóðið en svo sáust þeir ekki meir,“ segir Eyþór Jóvinsson, björgunarsveitarmaður og eigandi bókabúðarinnar á Flateyri, um heimiliskettina að Ólafstúni 14 sem urðu fyrir snjóflóðinu sem féll á þriðjudagskvöld.

Eyþór segir annan kattanna hafa fundist strax daginn eftir en að hinn hafi ekki látið sjá sig. „Svo er ég að fara aftur inn í húsið í gær og fer inn í barnaherbergi og þar sefur hann bara vært úti í horni, allur hinn rólegasti.“

„Hann var ekki fastur, honum hefur einhvern veginn tekist að flýja út í flóðinu og svo hefur hann bara leitað aftur heim í gamla rúmið sitt. Það björguðust allir, bæði mannfólk og ferfætlingar,“ segir Eyþór.

Kettirnir eru fjölskyldufólkinu að Ólafstúni 14 mjög kærir og sagði Alma Sóley Ericsdóttir Wolf, unglingsstúlkan sem lenti undir snjóflóðinu og sat þar föst í rúmlega hálftíma, í viðtali við RÚV að hún hefði haft minnstar áhyggjur af sjálfri sér og hafi frekar verið að hugsa um fjölskylduna sína og kettina tvo.

Eins og áður segir er Eyþór í björgunarsveitinni og þegar mbl.is sló á þráðinn var hann staddur í frystihúsinu á Flateyri, en þangað hafa allir munir fjölskyldunnar verið fluttir, flokkaðir og þurrkaðir. „Fyrst og fremst erum við að reyna að bjarga persónulegum munum. Við erum að reyna að bjarga því sem bjargað verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert