„Fann lífskraft minn aftur á fjöllum“

Sirrý fann lífskraftinn að nýju með því að ganga á …
Sirrý fann lífskraftinn að nýju með því að ganga á fjöll. Ljósmynd/Aðsend

Átakið Lífskraftur 2020 var kynnt á blaðamannafundi í verslun 66° Norður í Faxafeni í morgun. Lífskraftur er yfirskrift átaks í útivist og hreyfingu, þar sem tilgangurinn er að safna áheitum fyrir félögin Kraft og Líf.

G. Sigríður Ágústsdóttir, eða Sirrý, stendur fyrir átakinu til að fagna því að fimm ár eru síðan læknar sögðu að hún ætti í mesta lagi þrjú ár eftir ólifað.

Fagnar fimm árum með óhefðbundnum hætti

Sirrý greindist með leghálskrabbamein í fyrsta skipti árið 2010 og svo aftur árið 2015. Í síðara skiptið var ljóst að krabbameinið var krónískt og töldu læknar að hún ætti eitt til þrjú ár eftir ólifað. Síðan þá eru fimm ár liðin og vill Sirrý fagna þeim tímamótum og lífskrafti á óhefðbundinn hátt.

Hún hefur því ákveðið að ganga þvert yfir Vatnajökul í byrjun apríl í félagsskap fjórtán útivistarvinkvenna sinna og síðan ætlar hún að bjóða 100 konum að ganga með sér upp á Hvannadalshnjúk og í leiðinni að hvetja konur um allt land til að ganga og taka þátt í Lífskraftsgöngu í sinni heimabyggð.

„Ég fann lífskraft minn aftur á fjöllum eftir að hafa gengið í gegnum mikið reiðarslag sem fylgir því að greinast aftur með krabbamein. Það er ekki sjálfgefið að finna þennan kraft eftir slíkt áfall; vonbrigðin, sársaukinn og reiðin getur heltekið fólk. Mín leið til að takast á við erfiðar tilfinningar og veikindi var í gegnum hreyfingu í náttúrunni,“ segir Sirrý.

Eins og áður segir er markmiðið með Lífskrafti 2020 að safna áheitum fyrir félögin Kraft, félags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein, og Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans.

Opnuð hefur verið vefsíðan Lífskraftur en þar er hægt að styðja við átakið og kynna sér það betur.

„Litlir sigrar verða oft stórir“

Með þessu verkefni sameinar Sirrý ást sína á fjallgöngum og þá köllun sína að styðja við það þarfa og mikilvæga starf sem félögin Kraftur og Líf sinna. 66° Norður er bakhjarl átaksins.

„Það er rosalega mikilvægt þegar maður lendir í áföllum að fara í endurhæfingu og finna rétta endurhæfinguna sem hjálpar manni. Fyrir mig var það að fara á fjöll. Það var mikil valdefling fyrir mig að taka eitt skref í einu til að komast á toppinn, hvort sem það var lítið fjall eða stórt. Það var bara gott að hafa stjórn, svona litlir sigrar verða oft stórir,“ segir Sirrý í samtali við mbl.is. og heldur áfram:

„Þetta á ekki bara við um krabbamein, það geta verið alls konar áföll í lífinu sem getur verið erfitt að sigrast á en það er rosalega gott þegar maður nær stjórninni og upplifir árangur og sátt.“

Snjódrífurnar ætla að ganga með Sirrý þvert yfir Vatnajökul.
Snjódrífurnar ætla að ganga með Sirrý þvert yfir Vatnajökul. Ljósmynd/Aðsend

„Það er svo gott að lifa“

Félögin Líf og Kraftur hafa reynst Sirrý gríðarlega vel og langaði henni til gefa til baka.

En af hverju að velja svona erfiða leið yfir einn erfiðasta jökul í heimi?

„Það er svolítið táknrænt, það er rosalega erfitt að lenda í áföllum en það er samt einhvern veginn allt hægt ef maður hefur vonina, kærleikann og trúna á að eitthvað verði betra og mann langar að lifa, það er svo gott að lifa. Stundum erfitt en samt svo gaman,“ segir hún hlæjandi að lokum.

Vilborg pólfari sér um leiðangursstjórn

Sirrý hefur fengið til liðs við sig Snjódrífurnar en þær eru góðar útivistarvinkonur sem ætla að slást í för með henni í þessum krefjandi leiðangri. Liður í Lífskrafti 2020 er einnig að hvetja konur um allt land til að taka þátt í Lífskraftsgöngu í sinni heimabyggð á meðan Sirrý og vinkonur hennar þvera Vatnajökul, en lagt er upp með að gangan taki níu daga.

Leiðangursstjórar yfir Vatnajökul og á Hvannadalshnjúk eru Vilborg Arna Gissurardóttir, pól- og Everestfari, og Brynhildur Ólafsdóttir, Landvættaþjálfari og þrautreyndur fjallaleiðsögumaður. 

Snjódrífurnar skipa auk Sirrýjar, Brynhildar og Vilborgar;  Anna Sigríður Arnardóttir, Birna Bragadóttir, Guðrún Harpa Bjarnadóttir, Guðrún Ragna Hreinsdóttir, Heiða (Nikita) Birgisdóttir, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Kolbrún Björnsdóttir, Karen Kjartansdóttir, Soffía S. Sigurgeirsdóttir, Þóra Tómasdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé.

Sirrý í grunnbúðum Everest.
Sirrý í grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is