Fjórir alvarlega slasaðir — þar af þrjú börn

Suðurlandsvegi á Skeiðarársandi hefur verið lokað, en hált og hvasst …
Suðurlandsvegi á Skeiðarársandi hefur verið lokað, en hált og hvasst er á veginum þar sem tveir bílar rákust saman. Kort/mbl.is

Fjórir eru alvarlega slasaðir, þar af þrjú börn, og tveir minna eftir að tveir bílar, jeppi og jepplingur, rákust saman við Háöldukvísl á Skeiðarársandi, miðja vegu á milli Núpsstaðar og Skaftafells, á öðrum tímanum í dag.

Börnin eru á aldrinum 5-10 ára. Fjórði sem slasaðist alvarlega, fullorðinn einstaklingur, sat fastur í öðrum bílnum og beita þurfti klippum til að ná honum út og tók það töluverðan tíma að sögn Gríms Hergeirssonar, starfandi lögreglustjóra á Suðurlandi. 

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF GRO og TF-EIR voru kallaðar út …
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF GRO og TF-EIR voru kallaðar út vegna alvarlegs bílslyss á Skeiðarársandi um klukkan 14 í dag. Fjórir eru alvarlega slasaðir og verða fluttir á Landspítalann. mbl.is/Árni Sæberg

Alls voru níu í bílunum tveimur, allt erlendir ferðamenn, og sluppu þrír ómeiddir eða með minni háttar skrámur. 

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út og er sú fyrri nýlent samkvæmt upplýsingum frá Grími Hergeirssyni, settum lögreglustjóra á Suðurlandi. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort allir hinir slösuðu verði fluttir með þyrlunum en mikill viðbúnaður er á Landspítalanum vegna slyssins.

Uppfært kl. 16:20: 

Báðar þyrlurnar eru á leiðinni til Reykjavíkur með fjóra slasaða. Tveir hinna slösuðu eru á leiðinni til Reykjavíkur með sjúkrabílum. 

Lögreglan vinnur að því að klára vettvangsrannsókn. Grímur segir að leiða megi líkum að því að bílarnir hafi mæst þar sem framhliðar beggja bílanna eru mikið skemmdar. 

Uppfært kl. 16:58:

Önnur þyrlan er lent á Landspítalanum og seinni þyrlan er væntanleg innan tuttugu mínútna eða svo, samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Þrír eru um borð í fyrri þyrlunni en fjórir í þeirri seinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina