„Fólk vill búa hérna“

„Varnargarðurinn er ekki hannaður til að verja höfnina og þá er ekki hægt að hafa báta hérna yfir vetrartímann, fyrr en þetta verður lagað,“ segir Birkir Jónas Einarsson, sem hefur verið í útgerð á Flateyri ásamt fjölskyldu sinni frá því fyrir aldamót. Hann var skipstjóri á Blossa ÍS, sem óhætt er að fullyrða að hafi verið helsta atvinnutæki Flateyrar, enda eini bátur einu útgerðarinnar sem eftir er í bænum. 

Nú liggur Blossi, sem er einungis fjögurra ára gamall bátur, hálfsokkinn í höfninni og óvissa um framtíð útgerðarinnar. Birkir og Steinunn Guðný systir hans segjast efast um að foreldrar þeirra, sem eru um sjötugt, leggi í að byrja upp á nýtt með nýjan bát eftir þá rekstrarstöðvun sem fyrirsjáanlega er fram undan. Allt er þetta þó óráðið enn. Sex manns hafa atvinnu af útgerðinni.

mbl.is ræddi við Birki og Steinunni á Flateyri í dag, en Steinunn Guðný býr á móti húsinu við Ólafstún sem varð fyrir skemmdum í flóðinu úr Innra-Bæjargili og ræddi upplifun sína af því örfáum klukkustundum eftir að það féll.

Í baksýn í myndskeiðinu hér að ofan má sjá bifreið hennar, sem flóðið hreif með sér og stórskemmdi. Hún segir það lítið tjón, auðveldara sé að kaupa nýjan bíl en nýjan bát.

Högg eftir uppgangstíma

Systkinin segja að snjóflóðin á þriðjudaginn hafi verið mikið högg fyrir byggðina, sem hafi verið að sækja í sig veðrið upp á síðkastið, með tilkomu Lýðháskólans og ungs fólks sem hafi kosið að flytja búferlum á Flateyri úr 101 Reykjavík. Hlutirnir hafi verið á uppleið og jákvæðni til staðar í samfélaginu.

Systkinin Birkir Jónas Einarsson og Steinunn Guðný Einarsdóttir á Flateyri …
Systkinin Birkir Jónas Einarsson og Steinunn Guðný Einarsdóttir á Flateyri í dag. mbl.is/Hallur Már

„Ég held að ef fólk kemur hingað og verður hérna einn vetur þá kynnist það staðháttum og því að vera á svona stað. Fólk fær svolítið svona neikvæðu fréttirnar, en ekki fréttirnar þar sem við erum í góðum gír,“ segir Birkir, sem segist telja að staðalímyndin af Flateyri á meðal höfuðborgarbúa sé að það sé „allt hryllilegt“ á Flateyri.

„En það er ekki svoleiðis,“ segir Birkir, sem segir að það geti ekki allir búið á Reykjavíkursvæðinu.

„Fólk vill búa hérna,“ segir Steinunn. „Forréttindin eru svo mikil að búa hérna við náttúruna og fá að njóta hennar, en við þurfum líka að virða þessar náttúruhamfarir og gera okkur grein fyrir því hvað getur gerst og fara varlega,“ bætir hún við og leggur áherslu á að það þurfti að tryggja að varnargarðarnir séu 100% öruggir.

Nánar er rætt við þau Birki og Steinunni í myndskeiðinu hér að ofan.

mbl.is