Girða fyrir höfnina ef vindátt breytist

Frá undirbúningi hreinsunar í Flateyrarhöfn í morgun.
Frá undirbúningi hreinsunar í Flateyrarhöfn í morgun. mbl.is/RAX

Mengunin í Flateyrarhöfn er minni en menn óttuðust. Minni olía var um borð í bátunum og olíutönkunum, sem sukku í höfninni eftir að snjóflóð gekk þar yfir, en talið var í fyrstu.

Þetta segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. Starfsmaður Umhverfisstofnunar hefur verið fyrir vestan síðan í gær en komst ekki til Flateyrar fyrr en í morgun til að líta á aðstæður.

Heildarmagn olíu í höfninni er nálægt því að vera 5.000 lítrar, eins og Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafnar, greindi frá í gær.

Bátur á kafi í höfninni.
Bátur á kafi í höfninni. mbl.is/Hallur Már

Halda menguninni innan hafnar

Unnið verður að því að halda menguninni innan hafnar og ef vindátt breytist verður girt fyrir höfnina svo að mengunin fari ekki þaðan út. Sótt hefur verið girðing frá Ísafirði og er hún til taks. Lítið mál verður að draga hana út ef vindáttin breytist. Veðurspáin er mönnum þó í hag eins og staðan er núna.

Verið er að vinna í því að ná olíunni upp með aðstoð Gæslunnar, hafnarinnar og annarra viðbragðsaðila með olíuupptökutækjum og ísogsefnum, að sögn Ólafs. Búið er að ná upp olíutanki sem fór ofan í höfnina. 

„Það hefur verið unnið jafnt og þétt að þessu og sú vinna mun halda áfram fram yfir helgi. Það er stuttur birtutími en aðstæður hafa verið okkur hliðhollar,“ greinir Ólafur frá.

Starfsmaður Umhverfisstofnunar verður einnig viðstaddur íbúafund sem verður haldinn eftir helgi.

mbl.is