Hefðu þurft að fara á fiskiskipum í brjáluðu veðri

Frá Flateyri í morgun.
Frá Flateyri í morgun. mbl.is/RAX

Þörf er á ofanflóðavörnum til að verja Flateyrarveg, einu samgönguleiðina á landi að Flateyri. Þetta segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Ef varðskipið Þór hefði ekki komið hefðu menn þurft að fara til Flateyrar á fiskiskipaflota nærliggjandi byggðarlaga í brjáluðu veðri. 

Hann segir að menn séu meðvitaðir um þetta og að þetta þurfi að vinna í góðu samráði og samstarfi við Vegagerðina. „Fyrsta skrefið er að gera sér grein fyrir og viðurkenna þessa hættu. Við þurfum að átta okkur á til hvaða ráðstafana við þurfum að grípa til að varna því að þessi vegur lokist ótt og títt,“ segir Guðmundur og nefnir að ekki sé langt síðan bílar lentu í snjóflóði á Flateyrarvegi við Hvilftarströndina. 

Vegurinn var opnaður í morgun eftir að hafa verið mikið lokaður síðustu daga vegna snjóflóðahættu.

Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri.
Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri. mbl.is

Aðgerðir hefðu orðið mun erfiðari

Guðmundur bendir á að engin leið hafi verið að komast landleiðina eftir að snjóflóðin féllu á þriðjudagskvöld. Ekki hafi verið hægt að komast með þyrlu Gæslunnar heldur á Flateyri. „Ef sú frábæra ákvörðun hefði ekki verið tekin að koma með varðskipið Þór hefði okkar eina úrræði verið að berjast þarna yfir með veikum mætti á fiskiskipaflota nærliggjandi byggðarlaga í brjáluðu veðri. Maður vill hálfpartinn ekki hugsa til þess,“ greinir hann frá. „Hefðum við verið í þeim sporum hefðu allar aðgerðir verið langtum erfiðari.“

Varðskipið Þór fyrir vestan.
Varðskipið Þór fyrir vestan. Ljósmynd/Óttar Guðjónsson

Bæjarfulltrúar á leiðinni til Flateyrar

Þegar blaðamaður ræddi við Guðmund voru flestir ef ekki allir bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar á leiðinni saman á Flateyri til að virða aðstæður fyrir sér í birtingu og ræða við íbúa bæjarins, enda eru samgöngur landleiðina fyrst að komast í lag í dag.

Spurður út í næstu skref í eftirmálum snjóflóðanna segir Guðmundur að verið sé að meta tjónið á hafnarsvæðinu, auk þess sem lögð verða drög að því hvað tekur við eftir fyrsta viðbragð, meðal annars með tilliti til sálgæslu. „Það er vísast að hjá einhverjum komi áföllin aðeins seinna. Við erum með teymi til að taka utan um þá hópa og skilgreina þá sem þurfa að láta klukka sig,“ segir hann.

Frá ferð ráðherra ríkisstjórnarinnar til Flateyrar.
Frá ferð ráðherra ríkisstjórnarinnar til Flateyrar. Ljósmynd/Lísa Kristjánsdóttir

Hjálparmiðstöð í samstarfi við ríkislögreglustjóra

Undirbúningur er einnig í gangi fyrir íbúafund vegna snjóflóðanna eftir helgi. „Við munum gæta að því að það verði hægt að svara eins mörgum spurningum og mögulegt er og að þar verði allir helstu sérfræðingar,“ segir hann. Fólk þurfi að fá þau svör sem það eigi skilið að fá.

Einnig stendur til að setja upp hjálparmiðstöð í samstarfi við ríkislögreglustjóra til að íbúar Flateyrar geti leitað þangað með hvers kyns spurningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert