Félag leikskólakennara styður styttingu starfstíma

Félag leikskólakennara telur að tillögur stýrihópsins í þessum fyrsta áfanga …
Félag leikskólakennara telur að tillögur stýrihópsins í þessum fyrsta áfanga er snýr að almennum opnunartíma leikskóla borgarinnar sé mikilvægt skref. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Félag leikskólakenna styður heilshugar tillögur stýrihóps Reykjavíkurborgar um umbætur og skipulag leikskólastarfs í Reykjavík, einna helst til að koma í veg fyrir að leikskólakennarar flytji sig yfir á önnur skólastig. 

Meiri­hluti skóla- og frí­stundaráðs Reykja­vík­ur­borg­ar samþykkti á fundi sín­um í vikunni að breyta starfs­tíma leik­skóla borg­ar­inn­ar frá og með 1. apríl, þannig að al­menn­ur starfs­tími verði frá kl. 7.30 til 16.30, og styttist þar með um hálftíma. 

Í tilkynningu frá félaginu er meðal annars bent á að um áramótin tóku gildi lög sem meðal annars kveða á um leyfisbréf þvert á skólastig. „Við þá breytingu varð raunveruleg hætta á að leikskólakennarar flyttu sig yfir á önnur skólastig vegna ólíkra starfsaðstæðna og vinnutímafyrirkomulags,“ segir í tilkynningunni. 

Félag leikskólakennara telur að tillögur stýrihópsins í þessum fyrsta áfanga, er snýr að almennum tíma sem leikskólar borgarinnar eru opnir, séu mikilvægt skref. „Næsti áfangi snýr að því að færa starfsumhverfi leikskólakennara að því sem þekkist á öðrum skólastigum og þróa breytt skipulag leikskólastarfsins,“ segir jafnframt í tilkynningu og telur félagið þann áfanga vera eitt stærsta verkefnið í kjarasamningsgerð leikskólakennara í þeim kjarasamningum sem unnið er að nú. 

„Einungis með þeim hætti er hægt að afstýra því að leikskólakennarar færi sig í stórum stíl yfir á önnur skólastig til kennslu, því gerist það er leikskólastigið í alvarlegum vanda.“ 

Ein stærsta áskorun sveitarfélaga er að fjölga leikskólakennurum, að mati félagsins. Takist það mun það auka gæði leikskólakennslu til muna öllum börnum á leikskólaaldri til heilla.

mbl.is