Of snemmt að segja til um fjárhagslegt tjón

Ráðherrar Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir heimsóttu …
Ráðherrar Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir heimsóttu Vestfirði í gær. Ljósmynd/Lísa Kristjánsdóttir

„Á þessari stundu er engin leið að átta sig á því hvert fjárhagslega tjónið er,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands.

Í leiðangri forystufólks ríkisstjórnarinnar á hamfarasvæðin á Flateyri og Suðureyri í gær var Hulda Ragnheiður með í för. „Mér fannst nauðsynlegt að fara á staðinn til að átta mig á heildarmyndinni og upplýsa íbúana um stöðu þeirra,“ segir hún.

Skv. lögum bætir Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) tjón á öllum fasteignum sem kann að hafa orðið vegna snjóflóðanna, sem og á brunatryggðu innbúi og lausafé. Tjón á varanlegum hafnarmannvirkjum verður bætt að hálfu. Í hamförunum vestra fyrr í vikunni féll snjóflóð á eitt íbúðarhús á Flateyri og skemmdir urðu við höfnina þar, svo og á Suðureyri. Tjón á bátum bætir húftrygging báta hjá almennu vátryggingafélögunum.

Fljótt á litið virðist sem vátryggingavernd á þeim eignum sem skemmst hafa sé nokkuð góð að frátalinni flotbryggjunni, sem NTÍ bætir ekki. „Þegar aðeins líður frá sendum við matsmenn á næstunni til að taka út og meta skemmdir. Myndin á enn eftir að skýrast,“ segir Hulda. sbs@mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert