Pólverji á fimmtugsaldri lést í slysinu

Maðurinn sem lést í umferðarslysi á Reykjanesbraut á sunnudagskvöld var Pólverji á fimmtugsaldri. Samkvæmt lögreglu virðist hann hafa misst stjórn á bifreið sinni í slæmu færi með þeim afleiðingum að hann lenti framan á snjóruðningstæki sem kom úr gagnstæðri átt.

Að ósk aðstandenda verður ekki greint opinberlega frá nafni mannsins.

Áreksturinn átti sér stað við álverið í Straumsvík á tíunda tímanum á sunnudagskvöld og var Reykjanesbraut lokað í nokkrar klukkustundir á eftir, eða þar til á fyrsta tímanum um nóttina.

mbl.is