„Sluppum með skrekkinn“

Í aðflugi. Flugvél Air Iceland Connect kemur inn til lendingar …
Í aðflugi. Flugvél Air Iceland Connect kemur inn til lendingar á Ísafirði, snjóflóðamannvirki í hlíðinni í baksýn. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég fagna því hversu vel varnarvirkin á Flateyri virkuðu og í þetta skiptið sluppum við með skrekkinn. Við sem þjóð myndum aldrei fyrirgefa okkur ef það yrðu slys á stöðum sem enn eru óvarðir og við með ofanflóðasjóð bólginn af peningum.“

Þetta segir Halldór Halldórsson, stjórnarmaður í ofanflóðasjóði, fyrrverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Hann hefur lengi talað fyrir því að kraftur verði settur í framkvæmdir við ofanflóðavarnir og segir marga staði víða um land vera illa varða. Halldór kallar eftir nýrri forgangsröðun stjórnvalda, sem verði í samræmi við þá stefnu sem mörkuð var í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri og Súðavík fyrir aldarfjórðungi.

Ofanflóðasjóður tók til starfa árið 1997 með gildistöku laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og stendur árlegt 0,3% gjald á brunatryggingar húseigna undir fjármögnun sjóðsins. Lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum var breytt 2014 og 2017 til þess að heimila notkun á hluta fjármuna Ofanflóðasjóðs til að standa undir gerð hættumats fyrir aðra náttúruvá.

Lögunum var síðan breytt 2018 og þá var kveðið á um að gjaldið sem áður skyldi renna í Ofanflóðasjóð rynni í ríkissjóð í samræmi við ný lög um opinber fjármál en fjárheimildir sjóðsins eru sem fyrr ákvarðaðar í fjárlögum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Halldór áætlar að nú séu í sjóðnum 22-23 milljarðar og tekjur um 2,7 milljarðar á ári. Síðustu ár hafi aðeins um þriðjungur innheimts fjár farið í verkefni Ofanflóðasjóðs. Árið 2003 var ákveðið að hægja á framkvæmdum á vegum Ofanflóðasjóðs vegna þenslu í landinu á árunum 2004-2007. Í kjölfar efnahagsáfallsins 2008 dró úr því fjármagni sem Ofanflóðasjóður hafði til framkvæmda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »