Tjón einstaklinga og fyrirtækja í forgangi

Tjónið í höfninni á Flateyri er ljóslega mikið, þó enn …
Tjónið í höfninni á Flateyri er ljóslega mikið, þó enn sé of snemmt að segja til um fjárhæðir. Flotbryggjan þar fæst ekki bætt eins og staðan er í dag, samkvæmt framkvæmdastjóra Náttúruhamfaratryggingu Íslands. mbl.is/Hallur Már

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, kom til Flateyrar í gær með þyrlu Landhelgisgæslunnar í gær „til þess að hitta fólkið og láta það vita hvaða hlutverk við höfum í svona atburðum og í rauninni bara að reyna átta okkur á því í hverju tjónið er fólgið, mynda tengsl á svæðinu þannig að fólk viti hvert það eigi að snúa sér og geti leitað ráðgjafar“.

Hulda ræddi við mbl.is fyrir utan húsið við Ólafstún sem varð fyrir flóðinu úr Innra-Bæjargili í hádeginu í dag. Þar eru einnig þrír bílar illa farnir, tveir á hvolfi úti í móa neðan við götuna og einn dældaður á kafi í snjóskafli.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingu Íslands.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingu Íslands. mbl.is/Arnar Þór

Hún segir að Náttúruhamfaratrygging hafi ákveðið upplýsingahlutverk í þessum aðstæðum og því var sinnt í gær, en í dag er verkefnið að hitta þá sem eiga eignirnar sem tjónið hefur orðið á. 

„Það er gríðarlegt tjón á þessu húsi,“ segir Hulda um húsið sem varð fyrir flóðinu, en þegar blaðamenn bar þar að garði voru björgunarsveitarmenn að ljúka við að bera síðustu eigur fjölskyldunnar sem þar bjó út.

„Það sem við erum að horfa á er að það er verið að bjarga persónulegum munum þeirra sem þarna bjuggu og það er bara í forgangi núna. Við erum ekkert farin að horfa á það hvaða tjón er eiginlegt á eigninni,“ segir Hulda.

„Það er gríðarlegt tjón á þessu húsi,“ segir Hulda um …
„Það er gríðarlegt tjón á þessu húsi,“ segir Hulda um húsið við Ólafstún á Flateyri sem varð fyrir flóðinu. mbl.is/Hallur Már

Flotbryggjan á Flateyri ótryggð

Tjón einstaklinga og fyrirtækja á Flateyri og Suðureyri verður í forgangi við tjónsmat Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

„Við erum nýkomin frá því að hitta þann sem er ábyrgðaraðili á hafnarmannvirkjunum hérna á svæðinu og við vorum sammála um að það væri ekki tímabært að meta tjón á hafnarmannvirkinu sjálfu fyrr en að nokkrum dögum eða vikum liðnum, því það eru einfaldlega önnur verkefni í forgangi og við komumst ekki að til þess að meta tjón, til dæmis á rafbúnaði á höfninni sem er tryggður hjá okkur, vegna snjóalaga,“ segir Hulda.

Tveir bílar bárust með flóðinu út í móa fyrir neðan …
Tveir bílar bárust með flóðinu út í móa fyrir neðan Ólafstún og liggja þar á hvolfi. Einn til viðbótar er grafinn í skafli. mbl.is/Hallur Már

Flotbryggjan á Flateyri er illa útleikin eftir snjóflóðið, eins og annað sem fyrir því varð.

„Hún flokkast ekki undir það að vera varanlegt hafnarmannvirki og í lögum og reglugerð um Náttúruhamfaratryggingu Íslands eru kvaðir um að það séu eingöngu varanleg hafnarmannvirki sem eru tryggð, þannig að flotbryggjan fellur þar utan tryggingar.“

Þannig að hún er bara farin og fæst ekki bætt?

„Ja, eins og staðan er í dag er það niðurstaðan.“

Þeir sem urðu fyrir eignatjóni vegna hamfaranna á Flateyri og Suðureyri í vikunni geta tilkynnt tjón á vef Náttúruhamfaratryggingar Íslands.

mbl.is