Hamingja og harmur

Leikkonan Unnur Ösp Stefánsdóttir er með mörg járn í eldinum. …
Leikkonan Unnur Ösp Stefánsdóttir er með mörg járn í eldinum. Hún leikur um þessar mundir í Vanja frænda í Borgarleikhúsinu. Nýlega seldi hún, ásamt fleirum, réttinn af Föngum til Hollywood. mbl.is/Ásdís

Leikkonan Unnur Ösp Stefánsdóttir tekur hlýlega á móti blaðamanni með faðmlagi og kossi. Við setjumst niður í ró og næði í Borgarleikhúsinu til að ræða lífið og listina. Það er af nógu af taka því Unnur hefur upplifað stórkostlegar tilfinningar, bæði á sviði og í lífinu sjálfu. Unnur segir lífið ekki alltaf eiga að vera auðvelt og hafa þau hjón fengið sinn skerf af áföllum en Unnur talar nú í fyrsta sinn opinberlega um dóttur þeirra sem er með CP-hreyfihömlun. Að eignast fatlað barn hefur gefið Unni nýja sýn á lífið. Nokkuð sem hún hefur nýtt sér í leiklistinni.

Stór nöfn í Hollywood

Eftir útskrift fór Unnur út í ýmis sjálfstæð verkefni og setti upp söngleiki. „Ég vildi alls ekki fara í Þjóðleikhúsið þar sem pabbi var enn. Það var líka þessi höfnunarótti. Þótt ég væri búin að sanna það fyrir sjálfri mér að ég ætti erindi og komast í gegnum námið vildi ég ekki fara auðveldu leiðina eða gefa fólki færi á að segja að ég væri þar vegna hans. Ég var hörð á því og var því í sjálfstæða geiranum um tíma. Ég hafði þá strax áhuga á leikstjórn. Ég fann strax mikla þörf fyrir að fá að hafa um hlutina að segja. Það er svo mikil sköpunarútrás að leikstýra,“ segir hún.

Íslenska sjónvarpsserían Fangar hefur nú verið seldir til Hollywood. Nína …
Íslenska sjónvarpsserían Fangar hefur nú verið seldir til Hollywood. Nína Dögg Filippusdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir léku allar í Föngum en Nína og Unnur voru einnig framleiðendur, ásamt Davíð Óskari Ólafssyni og Árna Filippusyni. Ragnar Bragason leikstýrði og skrifaði handritið ásamt Margréti Örnólfsdóttur. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

„En svo fóru tækifærin að koma í leiklistinni og ég hef leikið miklu meira en leikstýrt. Í dag er ég farin að blanda þessu meira saman og svo hef ég líka verið að framleiða. Stærsta verkefnið mitt hingað til er Fangar, sem var áratug í vinnslu, en við unnum það saman, ég og Nína Dögg Filippusdóttir, ásamt frábærum hópi fólks. Á þessum áratug vorum við endalaust við það að gefast upp, koma okkur svo aftur í gang; þetta var ótrúlega lærdómsríkt. Þetta var mörg hundruð milljóna króna verkefni og óyfirstíganlega flókið og stórt fyrir fólk eins og okkur Nínu, sem unnum báðar í fullu starfi sem leikkonur með þessu.

En það var eitthvert erindi þarna sem brann á okkur sem varð þess valdandi að við gátum ekki sleppt takinu á þessu. Við unnum mikla rannsóknarvinnu inni í fangelsinu og okkur fannst við skulda þessum konum að raddir þeirra fengju að heyrast. Og það er gaman að segja frá því að nú erum við heldur betur að uppskera. Við erum búin að selja réttinn til Hollywood. Það er búið að skrifa undir samning og er þetta fyrsta íslenska serían sem er endurgerð í Hollywood,“ segir Unnur og brosir út að eyrum.

Farið þið út að vinna við þættina?

„Það er allt opið. Þetta er rosa stórt! Mjög stór nöfn sem koma að þessu sem við megum ekki greina frá strax. Og þetta sem byrjaði bara sem hugmynd þegar við Nína vorum að láta okkur leiðast í fæðingarorlofi! Maður skal aldrei vanmeta sköpunarkraftinn sem getur myndast þegar nýtt líf kviknar.“

Jelena og Jelena

Það er nóg að gera hjá Unni þessa dagana en ferillinn hefur leitt hana víðar en á leiksvið.

„Ég hef meira verið í seríum en kvikmyndum, Ófærð 2, Rétti og Föngum. Nú er ég í Ráðherranum og er að fara í tökur á Verbúðinni með Vesturporti. Það er mikil gróska í seríum núna. Ég hef mikinn áhuga á að fara í bíómyndir líka, það er draumur flestra leikara að blanda saman sviðsleik og kvikmyndaleik,“ segir hún.

Unnur leikur um þessar mundir í Vanja frænda eftir Anton …
Unnur leikur um þessar mundir í Vanja frænda eftir Anton Tsjekhov. Leikritið hefur fengið mikið lof. Ljósm./Grímur Bjarnason og Bjarni Grímsson

 „Um þessar mundir er ég svo að leika í Vanja frænda í Borgarleikhúsinu og svo vorum við að endurfrumsýna Kæru Jelenu, sem ég leikstýri. Í síðustu viku frumsýndi ég Kæru Jelenu með nýrri leikkonu, Þórunni Örnu, og Vanja frænda þar sem ég leik persónu sem heitir Jelena! Það er ekki eins og það sé algengt nafn,“ segir hún og hlær.

„Það hefur verið brjálæðislega gaman að takast á við Tsjekhov í öruggum höndum Brynhildar Guðjónsdóttur með geggjuðum leikhópi. Það er fátt meira nærandi en að fá að leika marglaga og breyskar persónur Tjekhovs og yndislegt hvað sýningin fær góðar viðtökur.“

Bæði flutt á spítala með sjúkrabíl

Unnur viðurkennir að stundum geti verið erfitt að púsla saman vinnu og fjölskyldulífi, en hún og Björn eiga saman fjögur börn á aldrinum þriggja til tólf.

„Við eigum einn tólf ára strák, Dag, og Bryndís er sjö ára. Við ákváðum svo að kýla á eitt í lokin, þegar ég var að detta í fertugt, en þá komu tvíburar! Eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það var svo óvænt, Jesús minn. Þetta var algjört sjokk. Þetta var eins og í bíómyndasenu þegar við fórum í sónar og sáum það mjög skýrt á skjánum að það voru tvö börn. Ég kreisti bara höndina á Bjössa og svo hlógum við og grétum í korter. Ljósmóðirin sagði við okkur – og mögulega laug hún því bara til að róa okkar – að konan á undan okkur hefði haldið að hún væri með eitt en var með þrjú!“ segir Unnur og skellihlær. 

Unnur er gift leikaranum Birni Thors og eiga þau fjögur …
Unnur er gift leikaranum Birni Thors og eiga þau fjögur börn. Hér má sjá þau saman á sviði í Brot úr hjónabandi. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Þetta er búið að vera rosalega töff, maður gerir ekkert lítið úr því. Við vorum bæði flutt með sjúkrabíl upp á spítala í sama mánuði í fyrra. Ég var með mikla magakrampa heima en Bjössi var sóttur beint af sviðinu! Það þurfti að stoppa sýningu á Fólk, staðir, hlutir. Þetta var álagstengt; við vorum vansvefta til langs tíma og að reyna að vinna krefjandi verkefni. Nú er þetta allt annað líf; þeir orðnir stærri og hættir að fá allar leikskólapestir. Við vorum bara í bugun. En þetta var „wake-up call“ fyrir okkur. Við höfum reynt að vera góð í að forgangsraða en þarna fattaði maður að við réðum ekki við alveg jafn mikið og við héldum. Maður verður að sníða sér stakk eftir vexti.“

Lífið á ekki bara að vera auðvelt

Fleira veldur því að Unnur og Björn þurfa meiri tíma til að sinna stórri fjölskyldu því Bryndís er með CP-hreyfihömlun.

„Það er heilkenni sem lýsir sér þannig að hún er mjög stíf til fótanna og með lélegt jafnvægisskyn. Hún getur ekki gengið óstudd og er bæði í göngugrind og í hjólastól,“ segir hún.

Unnur segir ganga vel með Bryndísi; henni gangi vel í skóla og dafni vel.

„Hún er ótrúlega skýr og flott stelpa og byrjuð að semja ljóð eins og mamma hennar gerði,“ segir hún.

„Hún er okkar stærsta verkefni; tvíburarnir eru ekkert mál í samanburðinum. Við eignuðumst í raun heilbrigt barn en fórum svo að átta okkur á því að eitthvað væri að og var hún greind með CP níu mánaða. Þetta var mikið áfall, auðmýkjandi og þroskandi. Maður fær nýja sýn á lífið sem ég hef nýtt mér í leiklistinni,“ segir hún.

„Þetta er búið að vera rosalega töff, maður gerir ekkert …
„Þetta er búið að vera rosalega töff, maður gerir ekkert lítið úr því. Við vorum bæði flutt með sjúkrabíl upp á spítala í sama mánuði í fyrra,“ segir Unnur. mbl.is/Ásdís

„Ég held maður geti upplifað ríkari hamingju þegar maður hefur siglt ofan í harminn. Allar tilfinningar verða dýpri.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »