Vatn flæddi úr brunahana í Fossvogi

Lögregla óskaði eftir aðstoð frá Veitum og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins til …
Lögregla óskaði eftir aðstoð frá Veitum og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins til að loka fyrir vatnsflauminn. mbl.is/Árni Sæberg

Bíl var ekið á brunahana í Fossvogi rétt fyrir klukkan tvö í nótt með þeim afleiðingum að hann brotnaði og mikið vatn rann um götur og göngustíga hverfisins. 

Lögregla óskaði eftir aðstoð frá Veitum og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins til að loka fyrir vatnsflauminn. „Það flæddi vatn úr brunahananum út um allt,“ segir Jóhann Örn Ásgeirsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Erfiðlega gekk að finna vatnslokann þar sem snjór er yfir öllu. Það gekk að lokum og ekki er vitað um skemmdir á húsum eða íbúðum í hverfinu. 

Ökumaðurinn ók af vettvangi en var stöðvaður skömmu síðar. Hann er grunaður um ölvun við akstur og var hann færður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert