Viðbragðshópur Rauða krossins virkjaður vegna slyssins

Frá aðgerðum lögreglu, slökkviliðs og Landhelgisgæslunnar við Hafnarfjarðarhöfn í nótt.
Frá aðgerðum lögreglu, slökkviliðs og Landhelgisgæslunnar við Hafnarfjarðarhöfn í nótt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðbragðshópur Rauða krossins var virkjaður í gærkvöldi vegna alvarlegs slyss sem varð við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði laust eftir klukkan 21. Þá tók Fríkirkjan í Hafnarfirði á móti þeim sem vildu í nótt. 

Lítill jepplingur fór í sjóinn við höfnina og voru þrír í honum. Köfurum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tókst að ná fólkinu út úr bílnum og var það flutt á spít­ala til aðhlynn­ing­ar en ekki feng­ust upp­lýs­ing­ar um líðan þess að svo stöddu. „Þetta var mjög alvarlegt slys,“ segir Jóhann Örn Ásgeirsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. 

Bílnum var náð upp úr höfninni skömmu eftir miðnætti og nutu lögregla og slökkvilið aðstoðar fimm kafar­a frá séraðgerðadeild Land­helg­is­gæsl­unn­ar við aðgerðirnar. 

Áfallahjálparteymi Rauða krossins mun styðja við ýmsa hlutaðeigandi eftir því sem við á, í samráði við áfallaráð Hafnarfjarðarbæjar.

Köfurum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tókst að ná fólkinu út …
Köfurum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tókst að ná fólkinu út úr bílnum og var það flutt á spít­ala til aðhlynn­ing­ar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is