Höfðu fé af unglingspilti

Mennirnir sögðust þurfa peninga til að bjarga vannærðu barni.
Mennirnir sögðust þurfa peninga til að bjarga vannærðu barni. mbl.is/Eggert

Tveir menn á miðjum aldri höfðu fé af unglingspilti í Laugarneshverfinu um hálftvöleytið í dag með því að sýna drengnum mynd af vannærðu barni og segjast þurfa peninga til að bjarga því. Þetta staðfestir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. RÚV greindi fyrst frá.

Móðir drengsins segir frá atvikinu á Facebook-síðu íbúa í Laugarneshverfi þar sem hún segir son sinn, eftir orðaskipti við mennina, hafa látið þá hafa fé. Þá hafi mennirnir séð greiðslukort drengsins og reynt þá, með nokkuð ágengum hætti, að fá hann til að fara í banka og ná í meiri peninga. Drengurinn hafi hins vegar náð að neita því og farið heim. 

Guðmundur Páll segist aðspurður ekki hafa áður heyrt af slíkri aðferð til að fá fé frá fólki. Þekktara sé að fólk beri skilti með einhverjum skilaboðum, í tilraun til að fá fé frá fólki. 
Aðspurður gat Guðmundur ekki svarað því hvort mennirnir hefðu verið Íslendingar, eða hve mikla peninga þeir höfðu af drengnum. Farið yrði í málið á morgun.

mbl.is