Snýst um kjarna Icesave-deilunnar

Telja verður ólíklegt að Ísland fái undanþágu frá ákvæðum nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins um innistæðutryggingar, en sambandið lítur svo á að ríki sem tilskipunin nær til hafi skyldum að gegna samkvæmt henni vegna tryggðra innistæðna.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í sameiginlegu svari utanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn frá mbl.is, en umrædd tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar nr. 2014/49/EU nær til Íslands vegna aðildar landsins að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Málið snýst um það hvort tilskipunin feli í sér ríkisábyrgð á bankainnistæðum.

Eldri tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar var í aðalhlutverki í Icesave-deilunni á milli Íslendinga annars vegar og breskra og hollenskra stjórnvalda, sem nutu stuðnings sambandsins, hins vegar í kjölfar bankahrunsins hér á landi 2008.

Deilan snerist í grunninn um það hvort íslenska ríkið bæri ábyrgð á því samkvæmt þeirri tilskipun að Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta (TIF) gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart innistæðueigendum líkt og Bretar og Hollendingar héldu fram. Hins vegar komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu í lok janúar 2013 að ekki væri séð að tilskipunin fæli í sér slíka ábyrgð íslenska ríkisins við þær aðstæður sem sköpuðust hér á landi í kjölfar falls viðskiptabankanna þriggja.

Icesave-mál framtíðarinnar tapast

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur undanfarinn áratug ítrekað varað við nýrri tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar en hún hefur þegar tekið gildi innan sambandsins og til stendur að taka hana upp í EES-samninginn.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Tilskipunin hefur einkum verið gagnrýnd af utanríkisráðherra fyrir að kveða á um ábyrgð ríkja á innistæðum og að hámarksfjárhæð tryggingaverndar sé í nýju tilskipuninni 100 þúsund evrur (um 13,7 milljónir króna) á hvern reikning í hverri lánastofnun samanborið við um 20 þúsund evrur samkvæmt eldri tilskipuninni.

Guðlaugur Þór sagði í umræðum á Alþingi 15. október að yrði ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar tekin upp hér á landi með ríkisábyrgð á bankainnistæðum myndu Icesave-mál framtíðarinnar tapast. Sama hversu góð kerfi væru fundin upp þá ættu bankar eftir að fara á hausinn í framtíðinni.

„Ég ætla að lýsa því hér yfir að ég sem utanríkisráðherra Íslands mun aldrei standa að því að Ísland samþykki í sameiginlegu EES-nefndinni eða á vettvangi EES-samstarfsins upptöku og innleiðingu þessarar löggjafar með þeim hætti að hún feli í sér ríkisábyrgð á bankainnstæðum. Aldrei,“ sagði ráðherrann enn fremur.

Undanþágur nauðsynlegar

Utanríkisráðherra sagði einnig í umræddri ræðu sinni á Alþingi að ólíkt þriðja orkupakka Evrópusambandsins væri ríkisábyrgð á bankainnistæðum „alvörumál“. Undanþágur væru nauðsynlegar „í ljósi aðstæðna hér á landi þar sem kerfislæg áhætta bankakerfis er eðli málsins samkvæmt allt önnur en í stærri ríkjum.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef þegar gert grein fyrir þeirri afstöðu minni á vettvangi EES-ráðsins, á vettvangi EFTA og í tvíhliða samskiptum að ríkisábyrgð á bankainnstæðum komi ekki til greina af hálfu Íslands,“ sagði Guðlaugur Þór enn fremur í ræðu sinni í þinginu.

Fram kemur í svari ráðuneytanna tveggja að staða málsins sé sú að það sé til skoðunar í vinnuhópi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) (EES-samningurinn er samningur á milli Evrópusambandsins og EFTA en Ísland er eitt af aðildarríkjum EFTA) um fjármálaþjónustu en fulltrúar fjármálaráðuneytisins eigi sæti í þeim hópi.

Þá segir að tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar hafi enn sem komið er ekki verið tekin fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni en nefndin sér um að samþykkja löggjöf frá sambandinu inn í EES-samninginn. Þar eiga sæti fulltrúar Evrópusambandsins sem og EFTA/EES-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein.

Krafa um undanþágu ekki lögð fram

Fram kemur í svari ráðuneytanna við þeirri spurningu hvort hin EFTA/EES-ríkin, Noregur og Liechtenstein, hafi sýnt afstöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart innistæðutilskipun Evrópusambandsins samstöðu að formleg afstaða þeirra til málsins liggi ekki fyrir í þeim efnum. Málið komi ekki til kasta sameiginlegu EES-nefndarinnar fyrr en náðst hafi samkomulag um upptöku hennar í EES-samninginn.

Stjórnvöld í Noregi hafa nálgast málið með talsvert öðrum hætti en íslenskir ráðmenn en þau hafa átt í viðræðum við Evrópusambandið um að viðhalda lágmarkstryggingavernd sinni upp á 2 milljónir norskra króna eða sem nemur rúmum 200 þúsund evrum. Á sama tíma hafa íslensk stjórnvöld gagnrýnt hækkun lágmarksverndarinnar úr 20 þúsund evrum í 100 þúsund evrur eins og áður hefur verið fjallað um.

Rifjað er upp í svari ráðuneytanna að komið hafi skýrt fram í afstöðu bæði meirihluta og annars minnihluta utanríkismálanefndar Alþingis árið 2014 að liggja yrði ljóst fyrir að tilskipunin fæli ekki í sér ríkisábyrgð á innistæðum. Það álit hafi verið kynnt á vettvangi vinnuhóps EFTA og utanríkisþjónustu Evrópusambandsins.

Spurð hvort til standi að óska eftir undanþágu vegna tilskipunarinnar segir í svari ráðuneytanna að þar sem málið sé enn á umræðustigi í vinnuhópi um fjármálaþjónustu hafi „enn ekki komið til þess að krafan um undanþágu frá ríkisábyrgð hafi verið send formlega til ESB.“ Spurð hvort stjórnvöld telji líklegt að slík undanþága verði veitt segir: „Að teknu tilliti til tilgangs tilskipunarinnar og fyrirliggjandi aðlagana á IX. viðauka við EES-samninginn [um fjármálaþjónustu] verður að telja það ólíklegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina