Hvergi slakað á hvað varðar hálendisþjóðgarð

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er eitt af stóru málunum auðvitað hjá þessari ríkisstjórn og það verður hvergi slakað á í þessari vinnu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð.

Til stendur að frumvarpið verði tekið fyrir nú á vorþingi, en umsagnarfresti í samráðsgátt lýkur í dag, 20. janúar. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í þverpólitískri nefnd vegna málsins, eru hvorugir bjartsýnir á að frumvarpið verði samþykkt í vor.

„Ég er nú alltaf að minna ráðherra á að vera ekki of bjartsýnir, þar sem fæst mál fara í gegn á réttum tíma,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. „Þetta mál byggir á stórri hugmynd. Umsagnafresti í samráðsgátt lýkur í dag og þá tekur við, væntanlega, úrvinnsla úr þeim umsögnum sem þangað berast. Ráðherrann [Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra,] er auðvitað að funda um land allt og fara yfir þetta mál, spurningar og athugasemdir.“

„Ég legg auðvitað áherslu á að það sé vandað til verka, en ég legg líka áherslu á það að þetta er mál sem er í stjórnarsáttmálanum og við vinnum að sjálfsögðu að framgangi þess áfram.“

Tekur þann tíma sem það þarf

Katrín segist ekki hafa sérstakar áhyggjur af því hvort málið verði samþykkt á vorþingi. „Þetta er stórt mál sem er í stjórnarsáttmála. Það tekur þann tíma sem það þarf og ég veit að ráðherrann er að vinna mjög ötullega að þessu samráðsferli sem og þverpólitíska nefndin, svo ég myndi nú telja, eftir að hafa fylgst með þessu máli í þróun, að það hafi verið vandað mjög til undirbúningsins.“

„Það þarf alltaf að vanda vel til mála og ég vænti þess bara að ráðherrann vinni að málinu áfram með þeim hætti sem hann hefur gert hingað til. En er þetta forgangsmál? Þetta er eitt af stóru málunum auðvitað hjá þessari ríkisstjórn og það verður hvergi slakað á í þessari vinnu.“

Starfa áfram samkvæmt stjórnarsáttmála

Í samtali við Ríkisútvarpið sagði Sigurður Ingi mikilvægt að ríkisstjórnin hlustaði á áhyggjufullar raddir sveitarstjórnarfólks vegna fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs.

„Ég skil það mætavel að fólk um allt land, sem verður aðili að þessum þjóðgarði, vilji hafa það alveg á hreinu hvernig aðkoma sveitarfélaganna verður tryggð. Þetta er ekki ósambærileg umræða við þá sem var í aðdraganda stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Þótt ég hafi ekki verið komin inn á þing þá man ég eftir umræðunni og hef kynnt mér hana. Það er mikilvægt að vanda til verka og ég vænti þess, af því þú spyrð um samstarfsflokkana, að við bara störfum áfram samkvæmt stjórnarsáttmála,“ segir Katrín spurð um stuðning samstarfsflokkanna við frumvarpið.

„Það breytir því ekki að það þarf að vinna málið vel og það á við öll okkar mál.“

Ferðaþjónusta og flutningskerfi rafmagns

Þegar umræðan berst að aðgengi ferðamanna og ferðaþjónustuaðila segist Katrín ekki vænta annars en að aðgengi að hálendisþjóðgarði verði með sambærilegum hætti og í öðrum þjóðgörðum Íslands. Spurð hvort stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu geti haft áhrif á afhendingaröryggi raforku segir hún það liggja ljóst fyrir að þar sé það flutningskerfið sem skipti mestu máli.

„Það liggur fyrir, og við sáum það í óveðrinu hér í desember, að þegar við horfum á orkuöryggi þá er það flutningskerfið sem skiptir í raun mestu máli. Öryggið snýst nú kannski einmitt um það að koma þessum strengjum og línum í jörð sem auðvitað rímar vel við sjónarmið náttúruverndar. Ég held þetta geti bara styrkt hvort annað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina