Laun forstjóra mikilvæg

Laun forstjóra í íslenskum fyrirtækjum hækkuðu hlutfallslega umfram laun annarra starfsmanna á tímabilinu 2002 til 2007 en lækkuðu á árum efnahagshrunsins 2008 og 2009.

Launahlutfall forstjóra og annarra starfsmanna hefur þó verið svipað frá 2009 til 2018. Vísbendingar eru um að hlutfallið sé nú að dragast saman en forstjórar voru með rúmlega fjórum sinnum hærri laun en aðrir starfsmenn á árunum 2016 til 2018.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Margrétar Kristínar Indriðadóttur á launahlutfalli forstjóra og annarra starfsmanna árin 1999 til 2018 í meistararitgerð hennar í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Byggist rannsóknin á ítarlegu gagnasafni sem nær til starfsmanna og fyrirtækja á Íslandi með 50 starfsmenn eða fleiri og teljast til almenns vinnumarkaðar.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur meðal annars fram að þróun launahlutfalls forstjóra og annarra starfsmanna hafi verið með ólíku sniði í stórum fyrirtækjum (með 250 starfsmenn eða fleiri) og fyrirtækjum sem eru skráð á markað en meðalstórum fyrirtækjum (50 til 249 starfsmenn). Hjá stórum fyrirtækjum hafi laun forstjóra hækkað að jafnaði um nærri 1% á ári yfir tuttugu ára tímabil en hjá fyrirtækjum sem skráð eru á markað hafi laun forstjóra hækkað um tæplega 3% á sama tímabili, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert