Margmenni á íbúafundi á Flateyri

„Það er því miður ekki hægt að hanna þessa garða …
„Það er því miður ekki hægt að hanna þessa garða þannig að undir þeim sé fullkomið öryggi,“ sagði Tómas Jóhannesson, fagstjóri ofanflóða hjá Veðurstofu Íslands, spurður út í það hvort ekki væri hægt að grípa til einhverra aðgerða til þess að gulltryggja það að flóð af þessari stærð eða stærra færi ekki yfir garðana. Mynd tekin á Flateyri á föstudag. mbl.is/Hallur Már

Fjölmennur íbúafundur hófst í Gunnukaffi á Flateyri kl. 17 í dag, en Ísafjarðarbær boðaði til fundar bæði þar og á Suðureyri kl. 20 í kvöld til þess að fara yfir stöðuna og svara spurningum íbúa eftir snjóflóðin þrjú sem féllu síðasta þriðjudagskvöld.

Á þessum fundi koma fulltrúar frá nánast öllum þeim stofnunum sem hafa á einn eða annan hátt komið að því að hjálpa íbúum að takast á við eftirmála flóðanna, fræða íbúa og ræða málin.

Öryggisleysi undir varnargörðunum

Margir íbúar á Flateyri hafa lýst því yfir að þeir finni fyrir óöryggi undir varnargarðinum eftir að flóðin fóru að hluta yfir báða leiðigarðana og inn á svæði sem fólk taldi fullkomlega öruggt, þrátt fyrir að um snjóflóðahættu væri að ræða.

Um þetta öryggisleysi var rætt á fundinum í dag. Hljóðið var þungt í mörgum sem sóttu fundinn er þetta var til umræðu, en almennt var andinn á fundinum jákvæður.

„Það er því miður ekki hægt að hanna þessa garða þannig að undir þeim sé fullkomið öryggi,“ sagði Tómas Jóhannesson, fagstjóri ofanflóða hjá Veðurstofu Íslands, spurður út í það hvort ekki væri hægt að grípa til einhverra aðgerða til þess að gulltryggja það að flóð af þessari stærð eða stærra færi ekki yfir garðana. Hann sagði að snjóflóðin væru náttúruhamfarir þess eðlis að líkönin sem notuð væru til þess að hanna varnargarðana væru ekki fullkomin, heldur væri alltaf einhver óvissa.

Í máli hans kom meðal annars fram að í kjölfar þessara flóða yrðu rýmingaráætlanir Flateyrar endurskoðaðar, á þeim svæðum sem eru efst í bænum, undir görðunum.

Skortur á neyðarbúnaði fólki ofarlega í huga

Íbúar ræddu einnig um skort á neyðarbúnaði í bænum þegar eitthvað kæmi upp á og kvörtuðu undan því að allt slíkt hefði verið flutt af gömlu heilsugæslunni. „Við erum innilokuð með ekki neitt,“ sagði einn þeirra og annar bætti við: „Við þurftum hárblásara til að hita stúlkuna upp, það var það eina sem til var,“ og vísaði þar til aðgerða björgunarsveitarmanna aðfaranótt miðvikudags er hin 14 ára gamla Alma Sóley Ericsdóttir Wolf var grafin upp úr snjónum og flutt niður í sundlaug þorpsins og hituð upp eftir að hafa verið í snjónum, meðal annars með hárblásara.

„Við höfum ekki nóg til þess að halda einu sinni skelinni heilli,“ sagði Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, um stöðu mála og vísaði þar til þeirra fjármuna sem fást frá fjárveitingarvaldinu til reksturs stofnunarinnar.

Hann sagði einnig að frá því að heilsugæslunni var lokað á Flateyri, sökum þess hve dýrt húsnæðið var í rekstri, hefði heilbrigðisstofnunin skoðað húsnæði víða í bænum til þess að geta komið upp herbergi til þess að læknir frá Ísafirði gæti komið og veitt þjónustu sína á Flateyri, en það hefði ekki gengið enn. Íbúar lögðu áherslu á að úr þessu yrði bætt.mbl.is