Nóg komið af ræðum á 17. júní

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tók við rúmlega 11 …
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tók við rúmlega 11 þúsund undirskriftum úr hendi Bergsteins Jónssonar, framkvæmdastjóra UNICEF. mbl.is/RAX

Barnamálaráðherra segir tölfræðina sýna að hagsmunir barna séu ekki nægjanlega oft settir í fyrsta sæti í íslensku samfélagi. Nóg sé komið af ræðum á 17. júní um hagsmuni barna. Raunverulegar aðgerðir þurfi að fylgja með.

Sérstök miðstöð varðandi ofbeldi gagnvart börnum verður sett á laggirnar og verður hún hýst hjá Barnaverndarstofu. Þetta kom fram í máli Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, þegar hann tók við 11.430 undirskriftum fólks sem skrifaði undir ákall UNICEF um að bæta umgjörðina þegar kemur að ofbeldi gagnvart börnum. 

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, afhenti Ásmundi Einari undirskriftir átaksins Stöðvum feluleikinn sem UNICEF á Íslandi stóð fyrir á síðasta ári. 

Bergsteinn segir undirskriftirnar ákall um að bæta umgjörðina þegar kemur að ofbeldi gagnvart börnum og að stofnað verði ofbeldisvarnaráð sem beiti sér fyrir auknum rannsóknum og forvörnum í málaflokknum.

Að hans sögn komu allir á skrifstofu UNICEF á Ísland að undirbúningi og framkvæmd átaksins Stöðvum feluleikinn. Undirskriftirnar voru afhentar í nafni Guðrúnar Ögmundsdóttur, fyrrverandi stjórnarformanns og stjórnarkonu UNICEF á Íslandi. Afskipti UNICEF að innanlandsmálum ná aftur til ársins 2010 þegar gefin var út skýrsla um stöðu barna á Íslandi en Guðrún Ögmundsdóttir var ritstjóri skýrslunnar, segir Bergsteinn.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, afhenti Gísla Arnóri Víkingssyni, …
Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, afhenti Gísla Arnóri Víkingssyni, eiginmanni Guðrúnar Ögmundsdóttur, þakklætisviðurkenningu undirritaða af Henriettu Fore, framkvæmdastjóra UNICEF, fyrir störf Guðrúnar í þágu barna heimsins.

Orka Guðrúnar í þessum undirskriftum

UNICEF gaf út skýrslu um ofbeldi gagnvart börnum árið 2013 og vann Guðrún að því ásamt starfsfólki UNICEF að leita leiða að úrbótum. „Hennar orka er í þessum undirskriftum og við vonum að hún verði til þess að hvetja ykkur til góðra verka í málaflokknum. Því eins og við sáum á þeirri tölfræði sem við tókum saman eru of mörg börn beitt ofbeldi á Íslandi og við þurfum að gera gangskör í að koma í veg fyrir það,“ sagði Bergsteinn þegar hann afhenti ráðherra undirskriftirnar í dag.

Ásmundur Einar segir að það sé mjög viðeigandi að UNICEF skuli afhenda þessar áskoranir í nafni og minningu Guðrúnar Ögmundsdóttur, baráttukonu fyrir réttindum barna. „Hennar barátta skilaði miklum áhrifum og leiddi til raunverulegra breytinga fyrir börn á Íslandi. Ég bind vonir við að þetta verði með sama hætti hér og ekki síst þar sem það er gert í hennar minningu. Með því að gera þetta með þessum hætti er hún að vissu leyti með okkur í anda í dag.“

Sláandi tölur

„Ég er ánægður með að sjá þessar undirskriftir,“ segir Ásmundur og hann hafi fagnað því þegar undirskriftarsöfnunin fór af stað. Þegar þessi tölfræði kom fram segir Ásmundur Einar það hafa verið sláandi að rúmlega 16% barna á Íslandi, 13 þúsund af rúmlega 80 þúsund börnum á Íslandi, hafi með einhverjum hætti þurft að upplifa líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Þetta eru sláandi tölur segir Ásmundur. 

„Þegar undirskriftarsöfnunin fór af stað og tölfræðin kom fram kynntum við það að við ætluðum strax að fara í aðgerðir og fimm aðgerðir voru þegar kynntar samhliða undirskriftasöfnuninni. Margar þeirra eru að komast í framkvæmd, meðal annars í samstarfi ráðuneytis við einstaka sveitarfélög,“ segir Ásmundur Einar. 

Ein þessara aðgerða miðar að því að setja upp sérstaka miðstöð varðandi ofbeldi gegn börnum. Þetta er gert í samstarfi við Barnaverndarstofu sem tók verkefnið að sér að halda utan um verkefnið og leiða þá vinnu, segir ráðherra.

Aukið fjármagn til Barnaverndarstofu

„Við munum veita auknu fjármagni til Barnaverndarstofu til að sinna því verkefni og fylgja því eftir,“ segir Ásmundur Einar. Hugsunin með þessu er að stjórnvöld á hverjum tíma hafi ríkt aðgengi að upplýsingum og faglegri ráðgjöf við stefnumótun í málaflokknum. Meðal annars er hluti af því mælaborð sem er í samstarfi UNICEF, ráðuneytisins og Kópavogsbæjar. Að þessi miðstöð verði hjá Barnaverndarstofu í samvinnu við frjáls félagasamtök, háskólasamfélagið, barnaverndarnefndir og aðra aðila sem hafa þekkingu, reynslu og erindi inn í þá vinnu, segir hann. 

„Þessi tölfræði sem tekin var saman af UNICEF sýndi fram á að við höfum ekki í nægjanlega miklu magni verið að setja hagsmuni barna í fyrsta sæti í íslensku samfélagi. Ég er sannfærður um að með bættri og aukinni tölfræði í málaflokknum aukum við líka þann pólitíska þunga sem fer í þessi mál. Vegna þess að það er komið nóg af því að við bara flytjum ræður á 17. júní um hagsmuni barna. Heldur verða að fylgja raunverulegar aðgerðir. Það er það sem tölfræðin þrýstir hinni pólitísku umræðu í. Það tókst ykkur með þessum undirskriftum og fyrir það þakka ég,“ sagði Ásmundur Einar og að þetta verði nýtt inn í þann slagkraft sem er í gangi.

Tölfræðiupplýsingar skipta öllu máli

Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndastofu, segir að allt kapp verði …
Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndastofu, segir að allt kapp verði lagt á að ráða sérfræðing til starfa til að vinna úr upplýsingunum. mbl.is/Árni Sæberg

Heiða Björg Pálma­dótt­ir, for­stjóri Barna­vernd­ar­stofu, segir að þau hjá Barnaverndarstofu séu ákaflega þakklát fyrir það traust sem þeim er sýnt með því að hýsa ofbeldismiðstöðina og UNICEF fyrir að setja þetta á kortið.

„Skiptir gríðarlega miklu máli að við í íslensku samfélagi áttum okkur á því hvernig aðstæður börn búa við. Við gerum okkar allra besta til að bæta þeirra aðstæður. Til þess að geta gert það þá skipta tölfræðiupplýsingar öllu máli. Ef við vitum ekki hver staðan er þá getum við ekki brugðist við henni. Barnaverndarstofa ætlar að gera sitt besta til að nýta kraftinn og gleðina sem einkenndu líf og störf Guðrúnar Ögmundsdóttur áfram. Við ætlum að leggja allt kapp á að ráða inn sérfræðing í tölfræðivinnslu til að taka saman tölfræðiupplýsingar sem liggja hér og þar í íslensku samfélagi og gera þær aðgengilegar á einum stað þar sem samfélagið getur nýtt sér það,“ segir Heiða Björg.

Eins að taka út stöðuna á þeim rannsóknum sem eru til um stöðu barna á Íslandi, barnavernd og ofbeldi gegn börnum. Þannig getum við mótað tillögur um hvaða aðgerðir þarf að ráðast í, segir hún. Hvernig við getum komið í veg fyrir að börn á Íslandi verði fyrir ofbeldi eins og hægt er. 

Safnað var undirskriftum þar sem fólk skuldbatt sig til að …
Safnað var undirskriftum þar sem fólk skuldbatt sig til að bregðast við ef það hefði grun um eða yrði vitni að ofbeldi gegn barni. Þá fylgdi undirskriftinni áskorun til stjórnvalda um að axla ábyrgð og standa vaktina gegn ofbeldi. Þá var þess krafist að stjórnvöld stofnuðu ofbeldisvarnaráð og að öll sveitarfélög landsins yrðu að taka upp skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi.

Þegar umrædd tölfræði var fyrst birt í maí 2019 boðaði Ásmundur Einar tilteknar aðgerðir til þess að bregðast við þeim. Meðal þeirra var að setja af stað tilraunaverkefni þar sem áhersla yrði á að greina upplýsingar þvert á kerfi sem benda til óviðunandi aðstæðna barna. Jafnframt tilraunaverkefni með einu eða fleiri sveitarfélögum sem hefði það að markmiði að koma á markvissri mælingu á velferð barna á ákveðnu svæði. Þessum verkefnum var komið á fót í lok júní 2019.

„Það var afar ánægjulegt að geta afhent ráðherra þennan mikla fjölda undirskrifta í dag í minningu Guðrúnar Ögmundsdóttur, að fjölskyldu hennar viðstaddri og heyra hann síðan tilkynna um stofnun Miðstöðvar um ofbeldi gegn börnum,“ segir Bergsteinn.

„Þetta er gleðidagur fyrir baráttufólk fyrir réttindum barna og sýnir að við getum knúið á um jákvæðar breytingar í sameiningu. Miðstöð um ofbeldi gegn börnum mun geta sinnt mörgum af þeim verkefnum sem við kölluðum eftir í formi svokallaðs ofbeldisvarnaráðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert