Sjö gerendur hafa haft samband

„Ég er ekki að fara að afsaka eða réttlæta ofbeldi …
„Ég er ekki að fara að afsaka eða réttlæta ofbeldi með neinum hætti, aðeins að skoða það frá öðru sjónarhorni heldur en er kannski algengara,“ segir Þorsteinn. Ljósmynd/Aðsend

Þorsteinn V. Einarsson, umsjónarmaður Karlmennskunnar, auglýsti eftir karlmönnum sem hefðu nauðgað eða brotið með öðrum hætti á öðru fólki kynferðislega á samfélagsmiðlum Karlmennskunnar fyrir helgi. Nú hafa sjö strákar sett sig í samband við hann vegna þess. 

Þorsteinn vill skoða ofbeldi út frá sjónarhóli gerenda sem gjarnan eru málaðir upp sem skrímsli og afmennskaðir í íslensku samfélagi. Hann tekur þó skýrt fram að með þessu vilji hann ekki gera lítið úr alvarlegum afleiðingum ofbeldis sem þolendur þurfi að lifa með heldur einungis skoða fleiri kanta ofbeldis og nauðgunarmenningar.

Þorsteinn er meistaranemi í kynjafræði og hefur haldið úti samfélagsmiðlum Karlmennskunnar um nokkurt skeið og haldið fjölda fyrirlestra í tengslum við þá. Með Karlmennskunni vill Þorsteinn hrista upp í og víkka út viðteknar karlmennskuhugmyndir. Með því telur hann að hægt sé að frelsa „karlmenn, konur og samfélagið allt úr álögum karlmennskuhugmynda“.

Vill tala við 15-20 menn

Þorsteinn vinnur nú að fjögurra til fimm þátta seríu af einskonar vefsjónvarpi. Í hverjum þætti ætlar hann að takast á við eitt ákveðið viðfangsefni, í einum þáttanna hefur hann hugsað sér að fjalla um nauðgunarmenningu og ofbeldi sem ber vinnutitilinn „Nafnlausu skrímslin“.

„Ég er að byrja að þreifa fyrir mér á þessum vinkli, að heyra af upplifun og sjónarhorni gerenda. Það eru sjö strákar búnir að hafa samband núna og ég er búinn að eiga djúpt spjall við tvo. Ég bara hreinlega veit ekki nákvæmlega hvernig nálgunin verður en þetta er frumstigið í undirbúningnum.“

Rödd þolenda hefur elfst mikið á síðustu árum, til dæmis …
Rödd þolenda hefur elfst mikið á síðustu árum, til dæmis með tilkomu Druslugöngunnar og #metoo hreyfingarinnar. mbl.is/Hari

Til að byrja með vildi Þorsteinn athuga hvort einhver væri tilbúinn í að segja honum frá sinni upplifun yfirleitt. Þorsteinn segir að það hafi vissulega komið honum á óvart að svo margir hefðu samband.

„Það kemur mér smá á óvart en það kemur mér líka á óvart að það séu ekki fleiri búnir að hafa samband. Ég vona að ég fái að heyra í 15-20 mönnum.“

„Gjörsamlega afmennskum mennina“

Aðspurður segir Þorsteinn að hann viti ekki alveg hvers vegna strákarnir hafi haft samband við hann. Þeir viti það ekki endilega sjálfir. 

„Ég upplifi að menn séu tilbúnir til þess að segja að þeir hafi gert eitthvað og séu miður sín og líði ömurlega yfir því. Þeir eru einhvern veginn fastir með neikvæða upplifun, skammast sín og fullir iðrunar. Allavega þeir sem ég hef talað við. Sumir hafa velt því fyrir sér hvernig þeir geti bætt fyrir brot sín en kannski ekki fundið leið til þess.“

Mynd frá mótmælum kvenna gegn kynferðisofbeldi sem fóru fram í …
Mynd frá mótmælum kvenna gegn kynferðisofbeldi sem fóru fram í New York. AFP

Þorsteinn segir að svokölluð skrímslavæðing sé algeng í nútímasamfélagi. 

„Eins og umræðan er í dag þá tölum við um skrímslin og ógeðin þegar svona mál koma upp og afmennskum gerendur. Þeir eru ekki manneskjur, þeir eru ekki partur af þessum samfélagi sem þeir eru samt. Ég ítreka að þegar ég er að segja þetta þá er ég ekki að afsaka ofbeldi eða draga úr alvarleika þess og áhrifunum sem verknaður þeirra hefur á annað fólk. Þetta er bara svo óunnið, það er svo óunnið hvernig við dílum við ofbeldið í samfélaginu okkar. Ofbeldi  viðgengst á allt of mörgum stöðum og er allt of algengt og útbreitt. Ég held að hluti af því að útrýma ofbeldi sé að skoða sjónarhorn gerenda líka. En ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er viðkvæmt fara þessa leið og ég vil gera það vel. Þess vegna er ég núna að byrja á því að heyra frásagnir gerenda en mun vinna þáttinn í samstarfi við mér fróðara fólk á þessu sviði,“ segir Þorsteinn. 

Til þessa hefur enginn strákanna verið tilbúinn í að koma fram undir nafni. 

„Menn eru ekki tilbúnir í að koma fram undir nafni. Ég tel að stór hluti af því sé virðing fyrir þolendur þeirra. Þeir eru meðvitaðir og ég er líka meðvitaður um það að ég er ekki að fara í neinar atvikalýsingar heldur vil einblína á hugsanir og upplifun gerenda fyrir og eftir ofbeldið. Ég er heldur ekki að fara að afsaka eða réttlæta ofbeldi með neinum hætti, aðeins að skoða það frá öðru sjónarhorni en er kannski algengara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert