Tími á stjórn án Sjálfstæðisflokksins

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega á fyrsta þingfundi …
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega á fyrsta þingfundi ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú er kominn tími á samstilltari, djarfari og víðsýnni stjórn, án Sjálfstæðisflokksins, fyrir allt fólkið í landinu og komandi kynslóðir. Stjórn sem leggur alla áherslu á ríkara félagslegt réttlæti og hefur á sama tíma meiri sköpunarkraft, framsýni og hugrekki,“ sagði Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar í ræðu sinni á fyrsta þingfundi ársins á Alþingi sem hófst klukkan 15:00 í dag.

Gagnrýndi Logi ríkisstjórnina harðlega og vildi benda á hvað „hefði raunverulega gerst“ frá því ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins tók við. Sagði hann meðal annars hagvöxt vera horfinn og atvinnuleysi hefði tvöfaldast og benti á það neyðarástand sem ríkti í bráðamóttökunni.

Sagði hann málefni útlendinga vera í ólestri og kvað öryrkja og eldri borgara hafa dregist aftur úr öðrum hópum. Auk þess lagði hann áherslu á að losun gróðurhúsalofttegunda hafi aukist.

Ríkisstjórnina skorti framtíðarsýn

Sagði Logi ríkisstjórnina ekki gefa nein fyrirheit um raunverulegar breytingar í þágu jöfnunar og sagði hana skorta alla framtíðarsýn.

Kvað hann hlýnun jarðar vera stærsta málið sem heimurinn stæði frammi fyrir og sagði hann mikilvægt að í ríkisstjórninni væri nægilega kjarkað fólk til að fylgja loftslagsaðgerðum eftir. Jafnframt þyrfti fólk sem væri meðvitað um mikilvægi þess að verja veikustu hópa samfélagsins fyrir áhrifum þeirra.

„Samfylkingin er tilbúin í það verkefni,“ sagði Logi í lok ræðunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina