60% túrista nota bílaleigur

mbl.is/Ómar

„Ásókn erlendra ferðamanna í bílaleigubíla hefur aukist jafnt og þétt og ekki útlit fyrir neina breytingu á því,“ segir Rögnvaldur Guðmundsson ferðamálafræðingur. Athuganir sem fyrirtæki hans Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar (RRF) hefur gert sýnir að gífurleg aukning hefur orðið á notkun erlendra ferðamanna á bílaleigubílum hér á landi á undanförnum árum.

Árið 2018 nýttu um 1.300 þúsund ferðamenn sér bílaleigubíla, en árið 2010 voru þeir 180 þúsund. Fjöldinn 2018 er því 7,2 sinnum meiri en 2010.

Rögnvaldur er einn fjögurra fyrirlesara á morgunverðarfundi Vegagerðarinnar sem fyrirhugaður var í dag en hefur verið frestað til 29. janúar vegna ófærðar og veðurs. Hann mun segja frá rannsóknum sínum á þróun umferðar erlendra ferðamanna á bílaleigubílum á tíu stöðum við hringveginn á tímabilinu 2010 til 2018.

Í skýrslu sem Rögnvaldur vann fyrir Vegagerðina kemur fram að um 60% allra erlendra ferðamanna sem hingað komu 2018 nýttu sér bílaleigubíla. Árið 2010 var hlutfallið 37%. Notkun bílanna var mest yfir sumarmánuðina 2018, þegar um 67% ferðamanna nýttu sér þessi farartæki, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert