Andlát: Hrefna Sigvaldadóttir

Hrefna Sigvaldadóttir
Hrefna Sigvaldadóttir

Hrefna Sigvaldadóttir, fyrrverandi skólastjóri Breiðagerðisskóla, lést á Droplaugarstöðum síðastliðinn sunnudag, tæplega níræð að aldri.

Hrefna var fædd í Reykjavík 21. marz 1930, dóttir Sigvalda Guðmundssonar húsasmíðameistara og Guðmundu Margrétar Sveinbjörnsdóttur húsmóður. Hún var þriðja í röð sex systkina, fimm systra og bróður. Hrefna var ógift og barnlaus.

Hrefna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950. Hún byrjaði í lögfræði við Háskóla Íslands, en fann fljótt að hugur hennar stóð til kennarastarfa. Hún hóf því nám í stúdentadeild Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist kennari 1958. Hrefna hóf þegar störf sem kennari við Breiðagerðisskóla og var þar kennari, yfirkennari og skólastjóri frá 1958 til 1996. Hrefna sat í stjórn Stéttarfélags barnakennara í Reykjavík 1964-1967.

Fyrsti skólastjóri Breiðagerðisskóla var Hjörtur Kristmundsson, 1956-1973, Gunnar Guðröðarson tók við af honum og var skólastjóri 1973-1978.

Hrefna var yfirkennari 1973-1978 og síðan skólastjóri 1978-1996. Þegar Hrefna var ráðin skólastjóri var hún meðal fyrstu kvenna sem ráðnar voru skólastjórar við barnaskóla í borginni.

Breiðagerðisskóli hóf formlega starfsemi 1956 og var þá kennt í vesturálmu skólans, en miðbygging og austurálma og síðar íþróttahús voru tekin í notkun á næstu árum. Einnig var kennt um tíma í Háagerðisskóla og Víkingsheimilinu við Hæðargarð. Skólahverfið náði yfir Bústaðahverfi, Smáíbúðahverfi, Blesugróf, Fossvogsbletti, Hvassaleiti og Kringlumýrarbletti vestur að húsi Veðurstofu Íslands.

Skólinn var mjög fjölmennur fyrstu 20 árin og voru flestir nemendur skólaárið 1963-1964 eða 1399. Skólinn var í nokkur ár þrísettur, þ.e. þrír bekkir notuðu sömu stofuna dag hvern, en einnig var kennt á laugardögum. Bekkir voru fjölmennir fyrstu árin eða allt upp í 35 nemendur í bekk og fjöldi bekkja í árgangi oftast 8-9. Nemendum tók að fækka þegar Hvassaleitisskóli tók til starfa 1965 og Fossvogsskóli 1971.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »