Fór í golf og bjargaði líklega mannslífi

Jóhann Sveinbjörnsson er Austfirðingur ársins 2019, fyrir að hafa heyrt …
Jóhann Sveinbjörnsson er Austfirðingur ársins 2019, fyrir að hafa heyrt neyðarköll ungrar erlendrar ferðakonu á Seyðisfirði í ágúst. Austurfrétt/Gunnar Gunnarsson

Jóhann Sveinbjörnsson, 86 ára gamall áhugakylfingur á Seyðisfirði, hefur verið valinn Austfirðingur ársins af lesendum Austurfréttar. Eitt kvöld í ágúst fór hann út á golfvöll að æfa sig frekar en að liggja yfir sjónvarpinu og sú ákvörðun varð sennilega til þess að lífi ungrar erlendrar ferðakonu fékkst bjargað, en hún náði að hrópa á hjálp ofan úr hlíðum fjallsins Bjólfs þar sem hún lá sárkvalin og illa slösuð eftir fall.

„Ég var búinn að koma mér vel fyrir í sófanum hér heima þegar, upp úr klukkan átta um kvöldið, byrjar þáttur sem mér líkaði ekki. Ég hugsaði með mér: „Djöfull er þetta leiðinlegt, nú fer ég inn á golfvöll,“ segir Jóhann í samtali við Austurfrétt, er hann rifjar atvikið upp. Ekki fylgir sögunni um hvaða þátt var að ræða.

Á golfvöllinn var Jóhann kominn um klukkan hálfníu um kvöldið þennan dag, 6. ágúst. Þá heyrði hann hljóð, þar sem hann stóð á golfsvæðinu við rætur Bjólfs, sem hann hélt fyrst að væru fuglar að kallast á. Svo heyrði hann hljóðið ítrekað og fór að hugsa með sér að þarna væri mannsrödd. Og það stóð heima.

Jóhann segist „ekki grobbinn“, en þó er hann ánægður með …
Jóhann segist „ekki grobbinn“, en þó er hann ánægður með sinn þátt í að stelpan bjargaðist og þakklátur lesendum Austurfréttar fyrir að sýna honum þá virðingu að velja hann Austfirðing ársins. Skjáskot úr myndbandi frá Ísmús

„Mér fannst ekki vera hægt að ganga hjá því ef einhver væri í vandræðum. Ég var með síma en vildi ekki hringja í Neyðarlínuna því ég hélt þetta væru fuglar. Ég keyrði því út í bæ, heim til lögreglumannsins og fékk hann með mér inn eftir. Við gengum upp eftir þar sem ég hafði heyrt í konunni og hóuðum upp í fjallið. Við fengum svar til baka. Við vorum búnir að kalla svolitla stund og hlusta á hana þegar okkur kom saman um að þetta væri mannsrödd. Þá tók hann upp símann og hringdi í Neyðarlínuna,“ segir Jóhann, Austfirðingur ársins, um þetta atvik í samtali sínu við Austurfrétt í dag.

Björgunarsveitarmenn úr Ísólfi á Seyðisfirði komu síðan ungu konunni til bjargar og var hún flutt með sjúkraflugi frá Egilsstöðum til Reykjavíkur laust eftir kl. 1 þessa ágústnótt.

Jóhann segist „ekki grobbinn“, en þó er hann ánægður með sinn þátt í að stelpan bjargaðist og þakklátur lesendum Austurfréttar fyrir að sýna honum þá virðingu að velja hann Austfirðing ársins.

Lesa má frásögn Jóhanns í heild á vef Austurfréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert