Geðhjálp kallar eftir endurskoðun á verkferlum

Stjórn Geðhjálpar segir það skjóta skökku við „að heyra aðstoðarframkvæmdastjóra …
Stjórn Geðhjálpar segir það skjóta skökku við „að heyra aðstoðarframkvæmdastjóra Neyðarlínunnar fullyrða það að öllum verkferlum hafi verið fylgt þegar ákveðið var að senda ekki sjúkraflutningamenn á staðinn þegar neyðarkall barst vegna ungrar konu í geðrofi heldur aðeins kalla eftir lögreglu“. mbl.is/Eggert

„Geðrof er grafalvarlegt ástand og einstaklingur í slíku ástandi þarfnast hjálpar heilbrigðisstarfsmanna eins fljótt og auðið er,“ segir í ályktun frá stjórn Geðhjálpar, vegna umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Kompáss í gær um mál ungrar konu sem lést eftir að lögregla var send henni til aðstoðar. Stjórn Geðhjálpar fer fram á að bæði lögregla og Neyðarlínan endurskoði starfshætti sína vegna málsins.

Hekla Lind Jónsdóttir, sem var 25 ára, lést 9. apríl í fyrra eftir átök við lögreglumenn og sögðu foreldrar hennar í fréttaskýringarþættinum í gær að þau teldu lögreglu hafa farið offari við handtökuna.

Lögregluþjónarnir sem framkvæmdu handtökuna voru um tíma grunaðir um brot í starfi, en ekki ákærðir, eftir rannsókn embættis héraðssaksóknara og sú ákvörðun var síðar staðfest af ríkissaksóknara. Fram kom í Kompási að réttarmeinafræðingur fullyrti eftir skoðun sína að aðgerðir lögregluþjónanna hefðu átt umtalsverðan þátt í því að svo fór sem fór.

Sjónarmið frá Neyðarlínu lýsi fordómum

Stjórn Geðhjálpar segir það skjóta skökku við „að heyra aðstoðarframkvæmdastjóra Neyðarlínunnar fullyrða það að öllum verkferlum hafi verið fylgt þegar ákveðið var að senda ekki sjúkraflutningamenn á staðinn þegar neyðarkall barst vegna ungrar konu í geðrofi heldur aðeins kalla eftir lögreglu,“ en þau orð lét Tómas Guðmundsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, falla í viðtali við Stöð 2 í gær.

Hann sagði að þegar hringt væri eftir aðstoð vegna geðrofs eða annarra geðrænna vandamála og enginn væri slasaður væri lögregla send á staðinn og það fyrirkomulag hefði verið við lýði í áratugi. Þá væri það rétta niðurstaðan þegar um mikið partýástand og mikinn æsing væri að ræða.

„Þetta sjónarmið lýsir miklum fordómum gagnvart ákveðnum hópi í samfélaginu, sem birtist m.a. í þessari mismunun, og veldur það stjórn Geðhjálpar miklum áhyggjum,“ segir í ályktun stjórnarinnar, sem kallar eftir því að bæði lögregla og Neyðarlína endurskoði sín mál og kallar einnig eftir óháðri úttekt á matsmeðferð og verkferlum Neyðarlínu:

„Atvikalýsing og skýrsla réttarmeinafræðings bendir einnig til þess að lögregluþjónar noti aðra verkferla en t.d. sérþjálfað starfsfólk geðsviðs LSH og sjúkraflutningafólk gerir þegar beita þarf einstakling nauðung við ákveðnar aðstæður. Þá telur stjórn Geðhjálpar einnig grafalvarlegt ef rétt er að starfsfólk Neyðarlínu treysti á mat einstaklinga í „partýástandi“ þegar kemur að heilbrigðisástandi sjúklings. 

Stjórn Geðhjálpar fer fram á það að óháðir aðilar verði fengnir til að taka út matsmeðferð og verkferla Neyðarlínunnar þannig að borgarar landsins geti treyst því að ekki sé farið í manngreinarálit og þegar óskað er eftir aðstoð í neyð. Stjórn Geðhjálpar fer einnig fram á það að verkferlar lögreglu verði teknir til endurskoðunar og að allir lögreglumenn fái þjálfun og kennslu í því að fást við einstaklinga í geðrofsástandi,“ segir í ályktuninni.

mbl.is