Hafna því að veita 2 milljóna styrk til neyðarvarna

Varðskipið Þór í Dalvíkurhöfn í desember.
Varðskipið Þór í Dalvíkurhöfn í desember. mbl.is/Þorgeir

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt samhljóða afgreiðslu byggðaráðs frá 17. janúar um að hafna erindi frá Eyjafjarðardeild Rauða krossins þar sem óskað er eftir tveggja milljóna króna styrk til að efla neyðarvarnir í Dalvíkurbyggð.

Erindi deildarinnar barst byggðaráði 19. desember. Styrkurinn var ætlaður til búnaðarkaupa fyrir neyðarvarnarkerru þannig að á Dalvík verði fullnægjandi búnaður til að opna fjöldahjálparstöð.

Byggðaráð fól sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga um málið og fyrirkomulag í nágrannasveitarfélögum.

„Enn þá er verið að vinna úr gögnum vegna óveðursins í desember og þar voru aðstæður mjög óvenjulegar fyrir Dalvíkurbyggð þar sem 50 manns voru á köldu svæði sem er ekki öllu jafna, í vinnubúðum við Dalvíkurhöfn,“ segir í bókuninni.

„Því telur byggðaráð ekki tímabært að ráðast í kaup á slíkum búnaði að svo stöddu. Byggðaráð telur að kortleggja þurfi stærra svæði með tilliti til fjölda kerra og aðgengi að þeim t.d. Eyþings-svæðið."

mbl.is