Landsmenn spá Íslandi 7. sæti

Guðjón Valur Sigurðsson í leiknum gegn Portúgal á sunnudag. Íslendingar …
Guðjón Valur Sigurðsson í leiknum gegn Portúgal á sunnudag. Íslendingar spá landsliðinu 7. sæti á mótinu, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Ríflega helmingur Íslendinga hefur mikinn áhuga á EM í handbolta sem fram fer þessa dagana í Svíþjóð, Austurríki og Noregi. Flestir telja að Noregur muni standa uppi sem sigurvegari, eða þriðjungur, en aðeins 8% svarenda spá Íslendingum sigri. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum þjóðarpúlsi Gallup. 

30% svarenda hafa lítinn áhuga á EM í handbolta en fólk er almennt líklegra til að hafa mikinn áhuga eftir því sem það er eldra. Fólk milli fertugs og fimmtugs er líklegra en aðrir aldurshópar til að hafa gífurlegan áhuga. 

Ef áhugi á mótinu er skoðaður með tilliti til stjórnmálaskoðana má sjá að þeir sem myndu kjósa Pírata ef kosið yrði til Alþingis í dag hafa minnstan áhuga á EM í handbolta. Stuðningsmenn Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar virðast hins vegar hafa mestan áhuga á mótinu, en 11% þeirra hafa gífurlegan áhuga á að fylgjast með framgöngu strákanna okkar og annarra þjóða á mótinu. 

Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik gegn Portúgal á sunnudag …
Björgvin Páll Gústavsson átti góðan leik gegn Portúgal á sunnudag og mun vonandi leika sama leik gegn Noregi í dag. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Flestir telja að Norðmenn verði Evrópumeistarar

Af þeim sem taka afstöðu telja flestir að Norðmenn, andstæðingar Íslendinga síðar í dag, muni standa uppi sem sigurvegarar, eða um 30% svarenda, en ríflega þriðjungur aðspurðra tók ekki afstöðu. Spánverjar teljast næstsigurstranglegastir en um fimmtungur telur að þeir vinni mótið. 

Aðeins 8% svarenda telja að Íslendingar vinni mótið og er yngri kynslóðin mun bjartsýnni á gott gengi liðsins en þeir sem eldri eru. Þrír af hverjum tíu fullorðnum undir þrítugu telja að Ísland vinni. 

Af þeim sem taka afstöðu telja landsmenn að meðaltali að íslenska landsliðið lendi í 7. sæti á EM, en fjórðungur aðspurðra tók ekki afstöðu. Þeir sem yngri eru spá liðinu 6. sæti.

mbl.is