Leggja til frestun málsins

Vonarskarð er í Vatnajökulsþjóðgarði og verður í hálendisþjóðgarði ef hann …
Vonarskarð er í Vatnajökulsþjóðgarði og verður í hálendisþjóðgarði ef hann verður að veruleika. Hér sést til Kvíavatns. mbl.is/RAX

Yfir 50 umsagnir höfðu síðdegis í gær borist um drög að frumvarpi um hálendisþjóðgarð sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda og 20 umsagnir um drög að frumvarpi um þjóðgarðastofnun og starfsemi þjóðgarða. Neikvæðar umsagnir eru meira áberandi en jákvæðar og margir leggja til að málinu verði frestað og ágreiningsefni skoðuð betur.

Mörg af þeim sveitarfélögum sem eiga land að hálendinu lýsa andstöðu við hálendisþjóðgarð, eins og hann er útfærður í frumvarpsdrögunum. Mesta áherslan er lögð á að stjórnunar- og verndaráætlun fyrirhugaðs þjóðgarðs sé ætlað að ganga framar skipulagsáætlunum sveitarfélaga og með því sé skipulagsvald þeirra skert.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að síðustu daga hafi bæst við umsagnir frá Rangárþingi eystra, Fljótsdalshreppi og sameiginlega frá sveitarfélögunum á Norðurlandi vestra sem öll lýsa andstöðu við frumvarpið. Jákvæðari tónn er í umsögnum Þingeyjarsveitar, Skútustaðahrepps og Grímsnes- og Grafningshrepps. Í umsögn Þingeyjarsveitar er þó minnt á að orkumálin í þjóðgarðinum séu óútkljáð.

Bændasamtök Íslands telja ekki tímabært að ganga til afgreiðslu frumvarpsins fyrr en vinnu við rammaáætlun lýkur. Bændasamtökin og Landssamband sauðfjárbænda vekja athygli á því að sjálfbærni hálendisins varðandi beit og aðrar nytjar hafi ekki verið skilgreind. Sauðfjárbændur mótmæla því að hægt sé að taka hefðbundinn nýtingarrétt af bændum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert