„Mikil afturför frá fyrri samningi“

Samninganefnd Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sambands íslenskra sveitarfélaga segir …
Samninganefnd Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sambands íslenskra sveitarfélaga segir nýjan samning milli SÍ og ríflega fjörutíu hjúkrunarheimila mikla afturför frá fyrri samningi en nefndin hafi neyðst til að undirrita samninginn þar sem samningsstaða hennar er í raun engin. mbl.is/Árni Sæberg

Samningur sem samninganefnd Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SVF) og Sambands íslenskra sveitarfélaga gerði við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur og þjónustu ríflega 40 hjúkrunarheimila til næstu tveggja ára er mikil afturför frá fyrri samningi sem gilti árin 2016 til 2018.

Þetta er mat SVF og Sambands íslenskra sveitarfélaga en fram kemur í yfirlýsingu samninganefndarinnar að henni hafi verið nauðugur einn kostur að undirrita umræddan samning enda samningstaða hennar í raun engin.

Í lok síðasta árs undirritaði SÍ 43 samn­inga um rekst­ur og þjón­ustu hjúkr­un­ar­heim­ila á land­inu til næstu tveggja ára en samn­ings­laust var um þjón­ustu þeirra á ár­inu 2019. Að mati SVF og Sambands íslenskra sveitarfélaga var ákvörðunin um að gera þessa samninga erfið og í raun umdeild innan hjúkrunarheimila af ýmsum ástæðum, einna helst þar sem samningurinn er mikil afturför frá fyrri samningi sem gilti 2016-2018. 

Aukinni þjónustuþörf ekki mætt með auknum fjármunum

„Í þessum nýja samningi er ekki gert ráð fyrir að bætt verði við fjármunum til að mæta aukinni þjónustuþörf þeirra einstaklinga sem munu þurfa að nýta sér þjónustu í hjúkrunar- og dvalarrýmum á samningstímanum,“ segir í tilkynningu en í því felst að ef íbúar eins hjúkrunarheimilis þurfa aukna þjónustu vegna heilsufarsástæðna mun fjármagn vegna þjónustu við íbúana ekki verða aukið í réttu hlutfalli við þörfina. Greiðslur vegna þjónustu við íbúa sem hafa sömu þjónustuþörf og áður, munu lækka. 

„Þetta gallaða kerfi var notað af hálfu ríkisins við útdeilingu fjármuna áður en gerður var þjónustusamningur við hjúkrunarheimilin árið 2016. Nýr samningur felur í sér afturhvarf til þess kerfis og gengur gegn því sjónarmiði að greiðslur fylgi þjónustuþegum og í samræmi við þeirra þörf,“ segir jafnframt í tilkynningunni og er samninganefndin engan veginn sátt við þessa niðurstöðu. 

Meginástæða þess að sú ákvörðun var tekin að skrifa undir samning nú var sú afstaða ríkisins að um 216 milljónir króna af fjárveitingu, sem ákvörðuð var með fjárlögum fyrir árið 2019 til reksturs hjúkrunarheimila, yrði ekki greidd nema gerður yrði samningur. Samninganefndin telur því að aðstöðumunur samningsaðila við samningsborðið hafi verið mikill og aflsmunar beitt. 

Munu neyðast til að senda íbúa á spítala

Þá vill nefndin ítreka að styrkja þarf rekstrargrunn hjúkrunarheimila. Nefndin metur það svo að með hliðsjón af minnkandi fjárveitingu og fagmönnun er ljóst að á næstu misserum munu sum heimilanna neyðast til að senda íbúa í auknum mæli á spítala, „enda mörg heimili ekki lengur í stakk búin til að sinna veikustu íbúum með öruggum hætti“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert