Ólíklegt að matvælin séu í dreifingu

Bótulismi er mjög sjald­gæf eitrun en hefur tvisvar greinst í …
Bótulismi er mjög sjald­gæf eitrun en hefur tvisvar greinst í súrmat hér á landi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það getur tekið fólk sem greinist með bótúlisma vikur og jafnvel mánuði að jafna sig og þurfa þeir jafnan öndunarvél eða aðra öndunaraðstoð á meðan eitrunin gengur yfir.

Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is. Hinn 18. janúar var bótúlismi staðfestur hjá íslenskum karlmanni á Norðurlandi, en fyrstu einkenna varð vart 12. janúar og var eitrunin staðfest tæpri viku síðar.

Eitrunarinnar hefur ekki orðið vart hjá fleirum, en að sögn Þórólfs berst hún ekki manna á milli heldur þarf að neyta matvæla sem innihalda bakteríuna Clostridi­um botul­in­um. Nái hún að vaxa í matvælum veldur hún alvarlegum veikindum með lömunum sem leitt geta til dauða.

Niðurstaðna í fyrsta lagi að vænta eftir viku

Uppruna eitrunarinnar er ákaft leitað af Matvælastofnun, heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, sóttvarnarlækni og sýkla- og veirufræðideild Landspítala, en að sögn Þórólfs er ekki talið að upprunann megi finna í matvælum í dreifingu.

„Við göngum út frá því að þetta sé ekki í víðari dreifingu, það væri mjög ólíklegt,“ segir Þórólfur. Niðurstaðna úr rannsóknum á matvælunum er ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi eftir viku, en þær fara fram erlendis.

Erfiður sjúkdómsferill

Bótulismi er mjög sjald­gæf eitrun sem hef­ur aðeins greinst hér á landi þris­var sinn­um, fyrst árið 1949 þegar fjór­ir menn veikt­ust eft­ir neyslu súrsaðs dilka­kjöts, aft­ur 1981 þegar fjög­urra manna fjöl­skylda veikt­ist og síðast árið 1983 þegar móðir og barn veikt­ust eft­ir að hafa borðað súrt slát­ur sem bakt­erí­an fannst í.

Að sögn Þórólfs er ekki vitað hvernig fór fyrir þeim sem veiktust árið 1949, en enginn lést í síðari tveimur tilvikunum snemma á níunda áratug síðustu aldar.

Fólk nær sér á löngum tíma. Hins vegar getur þetta verið erfiður sjúkdómsferlill, fólk lamast og þarf jafnvel að vera í öndunarvél og öndunaraðstoð á meðan þetta gengur yfir og það er margt sem getur gerst.“

mbl.is