Útlendingar hissa á stærð varnargarða hérlendis

Starfsmenn frá fjarkönnunarfyrirtækinu Svarma flugu þessum vígalega dróna yfir snjóflóðin …
Starfsmenn frá fjarkönnunarfyrirtækinu Svarma flugu þessum vígalega dróna yfir snjóflóðin á Flateyri á föstudag og mældu þau út með lidar-skanna. mbl.is/Hallur Már

Íslendingar eru í fararbroddi í heiminum í rannsóknum á snjóflóðavörnum og hvað varðar umgjörð uppbyggingar þeirra, en hvergi annars staðar er sérstakur sjóður til uppbyggingar ofanflóðavarna. Rétt er að halda því til haga, að sögn Kristínar Mörthu Hákonardóttur, byggingarverkfræðings hjá Verkís og sérfræðings í ofanflóðavörnum.

„Umgjörðin er góð og við erum með mjög strangar kröfur um ásættanlega áhættu neðan snjóflóðavarna,“ sagði Kristín Martha í samtali við mbl.is á Flateyri á föstudag, en þar var hún stödd til þess að taka þátt í mælingum á snjóflóðunum tveimur sem féllu síðasta þriðjudag.

Kristín Martha gekk hringinn í kringum varnargarðana á föstudag til …
Kristín Martha gekk hringinn í kringum varnargarðana á föstudag til þess að reyna að skilja hvernig flóðið hefði farið yfir þá. mbl.is/Hallur Már

Er blaðamenn mbl.is komu að grunnskólanum á Flateyri á föstudagsmorgun var teymi sérfræðinga frá Verkís og fjarkönnunarfyrirtækinu Svarma þar í þann mund að senda vígalegan dróna í loftið, sem flaug svo yfir flóðin og mældi flóðferlana nákvæmlega út með lidar-skanna.

Þessar mælingar verða svo einnig notaðar til þess að reikna út rúmmál flóðsins, en það er gert með því að bera hæðarmælingarnar úr lidar-skönnuninni frá því á föstudag við landmælingar sem gerðar hafa verið á svæðinu að sumarlagi.

Kristín Martha segir að erlendir sérfræðingar séu oftast hissa á því hvað Íslendingar byggi stóra varnargarða. „Þeir eru hissa á því hvað við erum að hanna fyrir langan endurkomutíma og hvað við erum að hanna fyrir stór flóð,“ segir Kristín, en tilhneigingin á mörgum stöðum erlendis er að hennar sögn að „vera með lægri garða, t.d. tíu metra háa.“ Þá er verið að hanna garða til að verjast minni flóðum, sem falli oftar.

Hissa á að sjá stórflóð úr Skollahvilft svona fljótt aftur

„Í Alpalöndunum miða menn við 100-300 ára endurkomutíma við hönnun garða, stærstu flóð sem falla á 100-300 ára fresti og stærri flóð fara yfir garðana að hluta eða öllu leyti. Við erum með strangari kröfur og miðum hönnun við flóð með um 1.000 ára endurkomutíma fyrir svona leiðigarða,“ segir Kristín og bætti svo við að flóðin sem féllu á Flateyri í síðustu viku kölluðu á endurmat á þessum endurkomutíma þar.

Dróni á flugi yfir Flateyri á föstudag.
Dróni á flugi yfir Flateyri á föstudag. mbl.is/Hallur Már

„Varnargarðar eru alltaf hannaðir fyrir flóð sem eru stærri en öll söguleg flóð. Þetta flóð úr Skollahvilftinni er líklega á pari við það sem kom 1995, miðað við flóðhraða en rúmmálsminna. Það er flóð sem átti bara að koma á einhverra hundraða ára fresti. Við erum hissa á að sjá flóð af sömu stærðargráðu svona fljótt aftur, sem kallar á endurskoðun tíðnigreiningarinnar og yfirferð á því hvað gerist þegar stærra flóð lendir á garðinum,“ segir Kristín.

„Skopplagið“ virðist hafa farið yfir garðana

Greint var frá því á vef Veðurstofunnar á sunnudag að þær mælingar og athuganir sem hefðu verið gerðar á flóðsnjó sem kastaðist yfir garðana bentu til þess að um væri að ræða köggla og kóf úr svokölluðu „skopplagi“ flóðsins, sem er eðlisléttara og flýtur ofan á hinum þétta kjarna sem streymir neðst í flóðinu. Í umfjöllun Veðurstofunnar segir að skopplagið geti ferðast nokkuð hraðar en kjarninn og að dæmi séu um að það geti tekið aðra stefnu en meginflóðið þegar breytingar verða á stefnu flóðsins.

Á þessari mynd má sjá hvernig flóðin tvö féllu síðasta …
Á þessari mynd má sjá hvernig flóðin tvö féllu síðasta þriðjudagskvöld, auk þess hvernig flóðið árið 1995 gekk niður á eyrina þegar varnargarðsins naut ekki við. Samsett mynd/Veðurstofa Íslands og map.is

„Svo virðist sem leiðigarðarnir hafi leitt meginstraum beggja snjóflóðanna niður til sjávar og bægt þeim frá byggðinni en skopplagið hafi kastast að hluta yfir garðana og haldið áfram innan þeirra og flætt að hluta yfir þvergarðinn. Að öllu jöfnu er eyðileggingarmáttur skopplags minni en þétta kjarnans og kraftur þess dvínar hratt þegar þétti kjarninn er ekki lengur til staðar til að ýta og draga það áfram. Eðlisþyngd flóðsnævarins innan garðanna er um 400 kg/m³ og snjórinn þar er hreinn, án íshröngls og inniheldur greinar og kvista sem flóðið hefur brotið á leið sinni. Flóðsnjórinn utan við garðana er eðlisþyngri, um 500 kg/m³, og dekkri yfir að líta vegna óhreininda og íshröngls sem tilheyrir hinum þéttari kjarna flóðsins,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Ýmsir vildu hafa garðana á Flateyri lægri

Íbúar á Flateyri hafa í kjölfar snjóflóðanna margir sagt, í viðtölum við fjölmiðla og á opnum íbúafundi í bænum í gærkvöldi, að þeir upplifi öryggisleysi undir varnargörðunum nú þegar í ljós hefur komið að stór flóð eins og þau tvö sem féllu fyrir tæpri viku geti farið á stökki yfir garðana og valdið tjóni á mannvirkjum. Sú varð enda raunin í Ólafstúni, efstu götu bæjarins.

Margir Flateyringar hafa lýst því yfir að þeir finni fyrir …
Margir Flateyringar hafa lýst því yfir að þeir finni fyrir óöryggi nú þegar í ljós hefur komið að stór flóð geta stokkið yfir leiðigarðana ofan við þorpið. mbl.is/Hallur Már

Kristín Martha bendir á að varnargarðarnir hafi svo sannarlega sannað gildi sitt og það hafi þeir í rauninni gerst strax árið 1999, en hún bendir á að þegar unnið var að uppbyggingu garðanna á Flateyri hafi þær raddir heyrst að þeir væru óþarflega stórir og lýti á landslaginu ofan við bæinn. Hún segir þetta ekki einsdæmi og þakkar einmitt góðri umgjörð og reglusetningu fyrir að garðarnir hafi ekki verið lækkaðir.

„Það sem hönnuðir lenda oft í þegar verið er að kynna fyrstu hugmyndir að snjóflóðavörnum er að íbúum finnast garðarnir of háir. Menn reyna að sannfæra hönnuði um að lækka garðana en sem betur fer erum við með skýrar vinnureglur þannig að það gerist ekki, en það er oftast viðmótið sem maður mætir. Það var líka hérna á Flateyri, það voru ritdeilur í blöðum á meðan á uppbyggingu stóð,“ segir Kristín.

Flóðin nú ættu að hennar sögn að veita tækifæri til þess að skilja betur hvernig nákvæmlega flóðin geta farið yfir svona garða og með hvaða krafti, en það er atriði sem tölvuforritin sem bæði sérfræðingar hjá Verkís og Veðurstofunni notast við geta ekki með nokkru móti hermt. „Það er það sem við erum kannski að skilja betur núna,“ segir Kristín og bætir við að væntanlega verði farið yfir aðra garða á landinu sem þegar hafa verið byggðir í framhaldinu.

Brýnt að verja þá staði sem óvarðir eru

Spurð hvar hún telji brýnast að hefjast handa við gerð ofanflóðavarna segir Kristín Martha að það sé í rauninni á öllum þeim stöðum sem eigi enn eftir að verja, sérstaklega á Seyðisfirði, hluta Neskaupstaðar og á Patreksfirði, þar sem bygging ofanflóðavarna er þó þegar hafin.

Kristín Martha Hákonardóttir, verkfræðingur hjá Verkís og sérfræðingur í ofanflóðavörnum, …
Kristín Martha Hákonardóttir, verkfræðingur hjá Verkís og sérfræðingur í ofanflóðavörnum, á Flateyri á föstudaginn. mbl.is/Hallur Már

„Framkvæmdir munu hefjast ofan hafnar á Patreksfirði næsta vor, það verður mikill léttir,“ segir Kristín en bætir við að Patreksfjörður sé einn þeirra staða þar sem enn verði hættusvæði undir vesturhluta leiðigarðs ofan hafnarinnar, „því að það er landfræðilega ekki hægt að koma fyrir hærri garði, við náum ekki að reisa garð sem er nægilega hár fyrir það flóð sem við erum að reyna að hanna fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert