Vilja þyrlupall á Ísafjarðarflugvelli

Flateyri eftir að snjóflóðin féllu þar fyrr í mánuðinum.
Flateyri eftir að snjóflóðin féllu þar fyrr í mánuðinum. mbl.is/Hallur Már

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að óskað verði eftir því við samgönguyfirvöld að komið verði upp upplýstum og upphituðum þyrlupalli á Ísafjarðarflugvelli og aðstöðu fyrir þyrlu á vellinum. Þannig verði mögulegt að þyrla verði staðsett á svæðinu til að stytta viðbragðstíma.

Einnig óskar bæjarráð eftir því að skoðaður verði möguleiki á því að þyrla sé staðsett á svæðinu þegar spáð er aftakaveðri eins og var í síðustu viku, að því er kom fram á fundi bæjarráðs í morgun.

Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði. mbl.is/Brynjar Gauti

Nýtt áhættumat fyrir Flateyri

Bæjarráð leggur einnig til við bæjarstjórn að óskað verði eftir því við stjórn Ofanflóðasjóðs að gert verði nýtt hættumat fyrir Flateyri og gerð verði úttekt á möguleikum á endurbótum á varnargörðum ofan Flateyrar.

Einnig að skipuð verði hættumatsnefnd fyrir öll hættumöt í Ísafjarðarbæ og þau endurskoðuð. Jafnframt leggur ráðið til að óskað verði eftir því að Ofanflóðasjóður taki þátt í að verja hafnarmannvirki á Flateyri fyrir snjóflóðum í ljósi mikilvægis mannvirkisins, bæði vegna öryggishlutverks hafnarinnar og að varnarmannvirkin beina snjóflóðum inn á svæðið og auki þar með áhættu þar.

Bátar sukku í Flateyrarhöfn.
Bátar sukku í Flateyrarhöfn. mbl.is/Hallur Már

Sjóvarnir á Suðureyri endurskoðaðar

Bæjarráð leggur sömuleiðis til við bæjarstjórn að óskað verði eftir því við Vegagerðina að endurskoða sjóvarnir á Suðureyri og að bæjarráð fari í öryggisáhættumat fyrir alla byggðarkjarna sveitarfélagsins í samráði við heimafólk og viðbragðsaðila þar sem mögulegar áhættur verði dregnar upp og viðbrögð við þeim kortlögð og skráð.

Frá Flateyri.
Frá Flateyri. mbl.is/Hallur Már

Lýðskólinn verði treystur í sessi

Fram kemur í fundargerðinni að mikið starf sé fyrir höndum við uppbyggingu atvinnulífs á Flateyri og væntir bæjarráð þess að fá stuðning frá stjórnvöldum vegna þess. Til að mynda þurfi að treysta Lýðskólann í sessi með föstum fjárframlögum, auk þess sem nauðsynlegt sé að byggja upp útgerð á Flateyri á nýjan leik.

Gestir fundarins voru Harpa Grímsdóttir og Tómas Jóhannesson frá Ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands.

mbl.is