„Dásamlegt veður“ og 14,8 stiga hiti í Seyðisfirði

Á Seyðisfirði er blessuð blíðan. Mynd úr safni.
Á Seyðisfirði er blessuð blíðan. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Heitt loft hefur streymt yfir landið í því hvassviðri úr suðvestanátt sem verið hefur ríkjandi í öllum landsfjórðungum í dag. Hlýjast hefur orðið á Austurlandi, en samkvæmt sjálfvirkum mælingum Veðurstofu Íslands hefur hiti í Seyðisfirði mest náð 14,8 stigum í dag og haldist um eða yfir 14 gráður allt frá því kl. 9 í morgun og þar til þetta er skrifað.

Í Bakkagerði í Borgarfirði eystra hefur hitinn svo einnig náð 13,6 gráðum í dag, samkvæmt sjálfvirkum mælingum.

„Það voru þrettán gráður á sunnudaginn. Það er bara eins og vorveður, dásamlegt veður,“ segir Aðalheiður L. Borgþórsdóttir, bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar, í stuttu samtali við mbl.is, spurð út í veðrið og hvort það væri jafn hlýtt utandyra og mælar Veðurstofunnar vilja meina.

Sjálfvirkar mælingar frá veðurstöð í Seyðisfirði sýna hitann rísa snögglega …
Sjálfvirkar mælingar frá veðurstöð í Seyðisfirði sýna hitann rísa snögglega í morgun um kl. 9 og haldast á bilinu 12-14 stig allar götur síðan. Graf/Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun um allt vestanvert landið

Umskiptin í veðrinu verða þó hröð og í kvöld kólnar um allt land. Veðurspár gera ráð fyrir því að hiti verði kominn niður að frostmarki eða þar um bil um miðnætti í öllum landshlutum.

Gular viðvaranir taka gildi á vestanverðu landinu í kvöld.
Gular viðvaranir taka gildi á vestanverðu landinu í kvöld. Kort/Veðurstofa Íslands

Gular viðvaranir hafa verið gefnar út um allt vestanvert landið og á miðhálendinu vegna hríðarveðurs úr suðvestri og verða þær í gildi þar til annað kvöld. Veðurstofan segir að búast megi við hvassviðri eða stormi, 18-25 m/sek. með talsverðum éljagangi með skafrenningi og lélegu skyggni. Búast má við vegalokunum, einkum á fjallvegum.

Áfram er þó búist við bjartviðri austanlands á morgun, þótt þar kólni nokkuð.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is