Eiga að kalla til sjúkrabíl

„Markmiðið hjá okkur með því að þjálfa lögregluna í því …
„Markmiðið hjá okkur með því að þjálfa lögregluna í því að þekkja einkenni æsingsóráðsheilkennis er að þeir geti áttað sig á því og kallað strax til sjúkrabíl,“ segir Ólafur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglumenn fá þjálfun í að þekkja einkenni æsingsóráðsheilkennis og er kennt að óska aðstoðar sjúkraflutningamanna þegar svo ber við. Það er þó ekki hluti eiginlegs verklags lögreglu og var ekki tekið sérstaklega fyrir á árlegu námskeiði lögreglu hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar fyrr en síðastliðið haust.

Þetta segir Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar (MSL), í samtali við mbl.is. Hann segir jafnframt að umfang þjálfunar lögreglu í samskiptum við fólk með geðraskanir hafi verið tvöfaldað og að enn eigi eftir að bæta í.

Ung kona í geðrofsástandi lést eftir átök við lögreglu 9. apríl 2019. Samkvæmt réttarmeinafræðingi fékk hún hjartastopp í kjölfar æsingsóráðsheilkennis, en í ljósi þess að það var ekki tekið fyrir á árlegu námskeiði lögreglumanna fyrr en síðastliðið haust má vera að lögreglumennirnir tveir, sem höfðu réttarstöðu sakborninga í nokkra mánuði en voru ekki ákærðir, hafi ekki þekkt einkenni slíks heilkennis nægilega vel eða rétt viðbrögð.

Ólafur segir að lengi hafi verið fjallað um æsingsóráðsheilkenni í þjálfun lögreglu en áherslan hafi aukist undanfarin ár. Nú sé það svo að í starfsnámshluta grunnnáms lögreglufræða, sem kennt hefur verið í samstarfi Háskólans á Akureyri (HA) og MSL frá 2017, sé farið yfir æsingsóráðsheilkenni þó að um það gildi ekki sérstakt verklag hér á landi.

Fræðsla eitt, raunverulegar aðstæður annað

„Viðbrögð við æsingsóráðsheilkenni hafa verið hluti af valdbeitingarkennslu lögreglunema árum saman og var þeirri kennslu viðhaldið þegar breytingar á lögreglumenntun áttu sér stað 2016. Fræðsla hefur aukist frá 2017 og í fyrra haust fengu all­ir starf­andi lög­reglu­menn sér­staka fræðslu á ár­legu nám­skeiði MSL, en við höfðum jafnframt boðið upp á sérhæfðan fyrirlestur um þetta þegar hingað kom kanadískur sérfræðingur árið 2017, sem var tekinn upp og hefur verið aðgengilegur öllum lögreglumönnum á innri vef lögreglunnar.“

„Markmiðið hjá okkur með því að þjálfa lögregluna í því að þekkja einkenni æsingsóráðsheilkennis er að hún geti áttað sig á því og kallað strax til sjúkrabíl,“ segir Ólafur.

Þó beri að hafa í huga að fræðsla, fyrirlestrar og umræður séu eitt, og þjálfun í raunhæfum aðstæðum annað. „Það er stór áskorun í lögreglunámi. Þegar fólk er undir miklu álagi þarf svona lagað helst að vera komið á vöðvaminnisstig. Námið er of stutt til að hægt sé að ná því, en auðvitað, eins og með annað háskólanám, á að byggja ofan á það. Lögregluembættin hafa verið að efla þjálfun sína til muna síðustu ár og svo koma lögreglumenn árlega til okkar í MSL í þjálfun.“

Alltaf tilbúin að skoða betri aðferðir

Stjórn Geðhjálpar og Snarrótin, samtök um skaðaminnkun og mannréttindi, hafa bæði gagnrýnt vinnubrögð lögreglumannanna og farið fram á að verkferlar verði endurskoðaðir. Í yfirlýsingu frá Snarrótinni segir að aðferðir lögreglu hafi ekki verið nauðsynlegar og að til séu aðferðir til líkamlegra þvingana sem dragi úr áhættu á að þeir sem þeim séu beittar hljóti skaða af, þær séu t.a.m. notaðar af starfsfólki geðdeilda.

Ólafur segir fullt tilefni til þess að lögregla og heilbrigðisstarfsfólk beri saman bækur sínar í þessum efnum og segir það munu verða gert. „Þetta er fullt tilefni til þess að við setjum samanburð í gang. Ef menn hafa betri leiðir, þá erum við alltaf tilbúin að skoða það, alltaf.“

Ólafur segir að bera þurfi í huga að fræðsla, fyrirlestrar …
Ólafur segir að bera þurfi í huga að fræðsla, fyrirlestrar og umræður séu eitt, og þjálfun í raunhæfum aðstæðum annað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að lokum bendir Ólafur á að sífellt sé verið að þróa þjálfun lögreglu. Til að mynda hafi umfang þjálfunar í samskiptum við fólk í geðrofsástandi og fólk með geðraskanir verið aukið, en það er hluti lögreglusálfræðiáfanga sem kenndur er í bóklega náminu við HA. „Við höfum verið að auka þessa þjálfun í kjölfar endurgjafar frá lögregluembættum í landinu sem vildu efla þessa þjálfun, og er hún nú tvær vikur í stað einnar. Það er svo spurning hvort þetta sé hlutverk lögreglu, en þetta er alla vega orðið verkefni lögreglu,“ segir Ólafur, og bætir því við að MSL og HA séu sammála um það að auka þurfi kennslu í þessum samskiptum lögreglu enn meira.

„Það sem við kennum er ekki þannig að ekki sé hægt að bæta það. Það er sífellt verkefni að þróa þjálfun fyrir lögreglumenn,“ segir Ólafur. Það sé svo ekki síðri þáttur í þjálfuninni að huga að líðan lögreglumanna, sem oftar en ekki þurfi að taka ákvarðanir í krefjandi aðstæðum. „Við erum að vinna á tvenns konar vettvöngum hvað þetta varðar, bæði þarf að þjálfa lögreglumenn í að þekkja eigin streitu og bæta ákvarðanatöku, og bæta þekkingu þeirra almennt, en ugglaust má gera betur þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert