„Er það í þessu sem kristallast ákveðið vanhæfi?“

„Er það kannski kjarni málsins, er það í þessu sem …
„Er það kannski kjarni málsins, er það í þessu sem kristallast ákveðið vanhæfi?“ spurði Guðmundur Andri Thorsson og vísaði í símtal sem Kristján átti við Þorstein Má, forstjóra Samherja, og þá hvort hann hefði rætt við hann sem ráðherra eða sem gamall vinur. mbl.is/Árni Sæberg

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ítrekaði að hann ætti engra sérstakra hagsmuna að gæta gagnvart útgerðarfyrirtækinu Samherja þegar hann kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í morgun. 

Efni fund­ar­ins var frum­kvæðis­at­hug­un á hæfi ráðherr­ans í ljósi stöðu hans gagn­vart Sam­herja, en nefndin sendi upplýsingabeiðni til at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is­ins fyrir um mánuði vegna málsins. 

„Ég vil nefna það hér að ég á engra sérstakra hagsmuna að gæta gagnvart þessu fyrirtæki. Ég á engin tengsl við það önnur en að hafa um áratuga skeið þekkt einn aðaleiganda þess og þáverandi forstjóra. Það var mat mitt að þau tengsl yllu ekki vanhæfi mínu í málum sem vörðuðu ekki mikilsverða hagsmuni,“ sagði Kristján þegar hann tók til máls í upphafi fundarins. 

Það er því mat ráðherra að starfsmenn ráðuneytisins hefðu verið hæfir til að fara með stjórnvaldsúrskurði sem tengjast Samherja. Kristján talaði sömuleiðis um traustsjónarmið og sagði að með því að segja sig frá málum Samherja í lok síðasta árs hefði hann viljað auka traust og tiltrú almennings á ráðuneytinu.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á fundi stjórnskipunar- og …
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun ásamt Kristjáni Skarphéðinssyni, ráðuneytisstjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. mbl.is/Árni Sæberg

Símtalið hluti af athafnaskyldu ráðherra

Nokkrir nefndarmenn spurðu Kristján út í símtal hans við Þor­stein Má Bald­vins­son, þáverandi for­stjóri Sam­herja, þar sem ráðherra spurði hvernig Sam­herji ætlaði að bregðast við mál­inu.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hvort Kristján hefði, í umræddu símtali, verið að tala við Þorstein sem gamall vinur eða sem ráðherra, eða jafnvel hvort tveggja í senn. „Er það kannski kjarni málsins, er það í þessu sem kristallast ákveðið vanhæfi?“ spurði Guðmundur Andri. 

Kristján Þór sagði þá að stundum gæti það verið erfitt að greina á milli þess hvort verið er að tala við vin eða forsvarsmann fyrirtækis. „Þetta er eins og þegar við erum að tala saman,“ sagði Kristján og vísaði í að þeir Guðmundur hafa þekkst frá námsárum sínum og síðar í þingmennskunni. 

„En ég greini ekki á milli þessarar tilveru. Þú ert einn og sami maðurinn og ég er einn og sami maðurinn. Þú leggur ekkert mat á það við hvorn hluta sjálfsins þú ert að tala,“ sagði Kristján. 

Kristján sagði það eitt af verkefnum ráðherra og hluta af athafnaskyldu hans að setja sig í samband við Samherja, eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, og koma sjónarmiðum á framfæri þegar málið kom upp, þar sem það er þess eðlis að það geti skaðað orðspor íslensks sjávarútvegs. 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kom fyrir fund stjórnskipunar- …
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kom fyrir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður nefndarinnar, spurði sömuleiðis út í símtalið og þá vildi hún einnig vita hvort Kristján hefði rætt málefni Samherja við einhverja dagana sem liðu milli þess sem Stundin hafði samband við hann og þar til Kveikur var sýndur, en það var um vikutími. 

„Ég hafði samband og ræddi þetta mál við fólk, eðlilega, og geri mínum nánustu samstarfsmönnum í stjórnmálum grein fyrir því sem er að koma upp. Þarna er til dæmis að koma upp mál sem snýr að einhverjum fundi sem ég hef ekki hugmynd um,“ sagði Kristján og vísaði í fund sem var í höfuðstöðvum Samherja í ágúst 2014. Kristján hefur áður sagt að hann hafi hvorki verið boðaður né sótt nokk­urn fund þá um árið, held­ur hafi hann verið beðinn um að taka í hönd­ina á nokkr­um ein­stak­ling­um er hann var stadd­ur á skrif­stofu Sam­herja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert