Framkvæmdastjóri Sorpu svarar fyrir sig

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu.
Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu. mbl.is/aðsend

Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir að skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar, sem varð til þess að honum var tímabundið vikið frá störfum, sé röng, ótraust og andstæð fyrri yfirlýsingum innri endurskoðunar um aðferðafræði við mat framkvæmda. 

Skýrsla innri endurskoðunar var afhjúpuð opinberlega í dag en hún fjall­ar um ástæður frá­vika sem urðu á áætluðum fram­kvæmda­kostnaði Sorpu vegna bygg­ing­ar gas- og jarðgerðar­stöðvar í Álfs­nesi og mót­töku­stöðvar í Gufu­nesi. Eins og áður hef­ur komið fram í fjöl­miðlum voru mis­tök við fjár­fest­inga­áætl­un og hærri fram­kvæmda­kostnaður or­sak­ir þess að Björn lagði til að tæp­um 1,4 millj­örðum króna yrði bætt við fjár­hags­áætl­un Sorpu til næstu fjög­urra ára.

„Á þeim 12 ára tíma sem undirritaður hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra SORPU bs. hafa aldrei verið gerðar athugasemdir við störf mín. Á það m.a. við um framsetningu rekstraráætlana á stjórnarfundum, frávikagreiningu vegna þeirra og áætlanagerð vegna framkvæmda á vegum fyrirtækisins“, segir í yfirlýsingu frá Birni. 

Hann hafnar þeirri gagnrýni sem kemur fram í hans garð í skýrslunni og tekur fram að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar sé ekki innri endurskoðun Sorpu „og þekkir því takmarkað til fyrirtækisins eða starfsumhverfis og starfa minna“.

Fékk gögnin nýlega í hendurnar

Björn segir að skýrsla innri endurskoðunar einkennist af röngum, ótraustum og samhengislausum ályktunum um forsendur og gæði starfa hans. 

„Við gerð skýrslunnar hafa t.d. verið dregnar veigamiklar ályktanir af skjölum sem aldrei hafa komið fyrir sjónir mínar. Sýnir það, eitt og sér, hversu óáreiðanleg skýrslan er.“

Björn tekur sérstaklega fram að ályktanir innri endurskoðunar séu í andstöðu við áður yfirlýstar skoðanir í skýrslu um verklegar framkvæmdir og innkaupamál hjá Reykjavíkurborg.

Þá hafi innri endurskoðun notað margra ára gamlar kostnaðaráætlanir frá Sorpu við gerð skýrslunnar.

Björn segir að hann hafi einungis nýlega fengið gögn í hendurnar sem innri endurskoðun Reykjavíkurborgar studdist við í skýrslunni. Björn vinnur nú að gerð athugasemda um skýrsluna og kýs að tjá sig ekki frekar um efni hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert