Borgarstjóri vilji ekki fara niður úr fílabeinsturninum

Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, segir borgarstjóra ekki starfi sínu …
Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, segir borgarstjóra ekki starfi sínu vaxinn ef hann axli ekki ábyrgð og taki aukinn þátt í samningaviðræðum borgarinnar við Eflingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það sárt að þurfa að horfast í augu við það að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi ekki verið viðstaddur opinn samningafund Eflingar í Iðnó í dag. Fjarvera borgarstjóra hafi hins vegar ekki komið henni á óvart. 

Ég er mjög bjartsýn manneskja og alltaf tilbúin til að gefa voninni enn einn séns en auðvitað kemur það mér ekki á óvart að borgarstjóri var ekki hér í dag. Hann er bara uppi í sínum fílabeinsturni og hann vill greinilega ekki fara niður úr honum, sem er mjög sárt og leiðinlegt að horfast í augu við,“ sagði Sólveig Anna í samtali við mbl.is að fundi loknum, sem var ekki eiginlegur samningafundur. Þess í stað kynnti Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, tilboð samninganefndar Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg sem var lagt fram síðastliðinn fimmtudag. 

Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri þekkt­ist ekki boð Efl­ing­ar um að …
Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri þekkt­ist ekki boð Efl­ing­ar um að vera viðstadd­ur op­inn samn­inga­fund Efl­ing­ar og Reykja­vík­ur­borg­ar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samningar félagsmanna Eflingar við Reykjavíkurborg hafa verið lausir í tíu mánuði og sagði Viðar borgina hafa verið fjarverandi allan þann tíma. Við höfum stundum heyrt talað um að það sé ekki hlutverk kjörinna fulltrúa að láta sig launamál varða. Það er ekki rétt,“ sagði Viðar og vísaði í borgarstjórnartíð Steinunnar Valdísar Óskardóttur, þegar hún, árið 2005, beitti sér í kjaraviðræðum með því að skipa jafnréttisráðgjafa Reykjavíkurborgar í samninganefnd borgarinnar. Í viðtali við Morgunblaðið af því tilefni sagðist Steinunn vilja sýna vilja sinn í verki í því að jafna launamun kynjanna og hækka laun kvenna sem eru að stórum hluta starfsmenn borgarinnar. 

Viðar segir að búið sé að ganga frá mikilvægum atriðum, svo sem taxta, vinnutímastyttingu í dagvinnu og gildistíma og forsendur samningsins. Nefndin mun hins vegar hafna því að ganga til samninga fyrr en niðurstaða úr starfi vaktavinnuhóps liggur fyrir. Það sem eftir stendur eru raunhæfar tillögur til lausnar sem borgin getur komið með svar við,“ sagði Viðar þegar hann fór yfir tilboðið. 

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, fór yfir tilboð samninganefndar Eflingar gagnvart …
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, fór yfir tilboð samninganefndar Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg sem var lagt fram síðastliðinn fimmtudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Munu ekki brjóta lög

Sólveig Anna segist fyrir löngu hafa áttað sig á áhugaleysi borgaryfirvalda á kjörum láglaunafólks í borginni, þegar hún starfaði á leikskóla um tíu ára skeið. En, ég vil samt ítreka að við viljum semja og við ætlum að ganga frá kjarasamningi en jafnframt erum við enn þá á þessum stað, við viljum eiga þessar viðræður við borgarstjóra og við viljum eiga þær fyrir opnum tjöldum þannig að allt komi fram.“

Dagur sagði í samtali við mbl.is í gær að hann vildi gera allt sem í hans valdi stend­ur til að flýta því að samn­ing­ar ná­ist í kjaraviðræðum Reykja­vík­ur­borg­ar og Efl­ing­ar. Um leið vill hann ekki gera neitt sem gref­ur und­an umboði samn­inga­nefnd­ar­inn­ar. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er skýrt kveðið á um að sáttafundi skuli halda fyrir luktum dyrum. 

„Við höfum reynt og gert það, að mæta á fundi fyrir luktum dyrum, og við höfum gætt mjög vel að trúnaði. En því miður hefur ástandið á þessum fundum verið þannig að það er einfaldlega útilokað að eitthvað gott gerist, að samningar náist, það mun ekki gerast og sökin liggur svo sannarlega ekki okkar megin,“ segir Sólveig Anna, en bætir við að samninganefndin muni að sjálfsögðu ekki brjóta lög og mæta á þá fundi sem embætti ríkissáttasemjara boðar. „En aftur vil ég ítreka það að borgarstjóri verður að mæta okkur í þessum viðræðum. Það er ekkert sem bannar eða meinar honum að mæta okkur á fundum, ekki neitt.“

Sólveig Anna segir kröfur samninganefndarinnar skýrar hvað varðar aðkomu borgarstjóra í kjaraviðræðunum. „Við krefjumst þess að hann axli pólitískar ábyrgðir sem hann ber sem æðsti yfirmaður starfsfólks í borginni og sem lýðræðislega kjörinn fulltrúi, borgarstjóri, og málsvari jöfnuðar í samfélaginu. Hann hlýtur að ætla að axla þessa ábyrgð og hitta okkur. Ef hann er ekki tilbúinn til þess að takast á við þetta verkefni er hann einfaldlega ekki starfi sínu vaxinn að mínu mati.

Samninganefnd Eflingar á fundinum í dag ásamt fleiri félagsmönnum.
Samninganefnd Eflingar á fundinum í dag ásamt fleiri félagsmönnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír milljarðar til í verkfallssjóði

At­kvæðagreiðsla hjá fé­lags­mönn­um Efl­ing­ar um vinnu­stöðvun starfs­manna Reykja­vík­ur­borg­ar hófst í gær. Efl­ing­ar­bíll­inn, sem er merkt­ur með slag­orðinu „Borg­in er í okk­ar hönd­um“, byrjaði að safna utan­kjör­fund­arat­kvæðum fé­lags­manna upp úr há­degi en félagsmenn geta einnig greitt atkvæði á heimasíðu Eflingar. 

Kosningaþátttakan er góð að sögn Sólveigar Önnu en klukkan ellefu í morgun höfðu 30% félagsmanna sem vinnustöðvunin nær til greitt atkvæði. Rúm­lega 1.800 starfs­menn Reykja­vík­ur­borg­ar starfa und­ir kjara­samn­ingi Efl­ing­ar, en þar af eru yfir 1.000 starfs­menn sem starfa á leik­skól­um, 710 í umönn­un­ar­störf­um á vel­ferðarsviði og um 140 í störf­um á um­hverf­is- og skipu­lags­sviði. 

Sólveig Anna telur yfirgnæfandi líkur á að verkfallsboðunin verði samþykkt og að félagið sé vel undirbúið fyrir verkföll. Þrír milljarðar eru í verkfallssjóð. Fólk veit nákvæmlega hvers virði það er og það veit að ef það leggur niður störf þá munu allir í þessari borg verða mjög fljótir að átta sig á hvaða grundvallarhlutverk við höfum í samfélaginu,“ segir hún. 

Líklegt að leikskólar loki komi til verkfalls

Aðspurð hvort hún telji að leikskólar borgarinnar verði óstarfhæfir, komi til verkfalls, telur hún það mjög líklegt. Miðað við þann fjölda félagsmanna minna sem starfa á leikskólum held ég að það verði einstaklega erfitt fyrir borgina að halda leikskólunum opnum. Um 80 deildarstjórar á leikskólum borgarinnar eru félagsmenn Eflingar,“ segir Sólveig Anna. 

Atkvæðagreiðslu lýkur á sunnudag og búast má við niðurstöðu á sunnudagskvöld eða í síðasta lagi á mánudagsmorgun að sögn Sólveigar Önnu. 

Komi til vinnu­stöðvana er dag­skrá þeirra hér að neðan:

Þriðju­dag­ur 4. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 12:30 og fram til klukk­an 23:59.

Fimmtu­dag­ur 6. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00:01 og fram til klukk­an 23:59.

Þriðju­dag­ur 11. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 12:30 og fram til klukk­an 23:59.

Miðviku­dag­ur 12. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00:01 og fram til klukk­an 23:59.

Fimmtu­dag­ur 13. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00:01 og fram til klukk­an 23:59.

Mánu­dag­ur 17. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00:01 og ótíma­bundið eft­ir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert