Nýjar krabbameinsmeðferðir dýrar

„Þessar niðurstöður eru vissulega eitthvað sem undirstrikar það hvað það …
„Þessar niðurstöður eru vissulega eitthvað sem undirstrikar það hvað það er mikilvægt að við förum að hugsa út í það hvað við erum tilbúin í að setja mikið í meðferðir þegar þær eru orðnar svona sérhæfðar, þróaðar og dýrar. Hvað samfélagið er tilbúið að leggja í þetta,“ segir Signý. Ljósmynd/Aðsend

Niðurstöður nýrrar rannsóknar um meðferð krabbameina undirstrikar mikilvægi þess að Íslendingar fari að velta fyrir sér hversu mikinn kraft og fjármuni þeir vilji setja í krabbameinsmeðferðir, að sögn yfirlæknis á blóðlækningadeild Landspítalans.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að með því að nota ákveðnar gerðir T-frumna, sem ónæmiskerfi fólks framleiðir sjálft, sé mögulega hægt að ráða niðurlögum ýmiss konar krabbameins. Aðferðin hefur ekki verið prófuð á fólki og er á byrjunarstigi en hefur mikla möguleika, að sögn þeirra sem að rannsókninni standa. 

„Ég held að það sé aðeins of snemmt að tala um byltingarkennda rannsókn en þetta er vissulega mjög áhugaverð grunnrannsókn sem þeir hafa gert þarna og það undirstrikar hvað er margt að gerast í þróun krabbameinsmeðferða. Það að nota ónæmiskerfið okkar til að ráðast á krabbameinsfrumur er þó ekki glænýtt af nálinni og voru meðal annars veitt Nóbelsverðlaun í fyrra fyrir uppgötvun á lyfjum sem hafa áhrif á krabbamein í gegnum ónæmiskerfið,“ segir Signý Vala Sveinsdóttir, yfirlæknir á blóðlækningadeild Landspítalans.

Virkar á allar tegundir krabbameinsfrumna 

Spurð hvers vegna rannsóknin sé áhugaverð segir Signý: „Þessi T-fruma sem er verið að fjalla um í þessari rannsókn er í sjálfu sér vel þekkt sem eitilfruma. Hún er mjög sérhæfð. Við erum öll með þessar eitilfrumur í okkur og eru þær hluti af ónæmiskerfinu, sérstaklega í baráttu við veirur sem við fáum í okkur," greinir hún frá.

„Hver T-fruma hefur alveg sérstakt hlutverk í okkar eigin líkama en það sem er svo merkilegt í þessari tilteknu rannsókn er að menn voru að einangra T-frumur í einstaklingi sem virtist hafa víðtækari áhrif en það sem við þekkjum í dag og þennan sérstaka eiginleika til að geta drepið frumur sem eru í öðrum einstaklingi en þeim einstaklingi sem sjálf T-fruman kemur frá, ólíkt því sem við þekkjum í dag. Það er einnig mjög áhugavert að hún skyldi virka á allar tegundir krabbameinsfrumna sem þeir voru að athuga án þess að ráðast á heilbrigðar frumur. Það er það sem gerir þetta svo sérstakt og áhugavert.“

Niðurstöður rannsóknarinnar hafa fengið mikla athygli enda segja þær til …
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa fengið mikla athygli enda segja þær til um að mögulega sé hægt að nota aðferðina í baráttunni við öll krabbamein. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mörg ár í að rannsóknin hafi áhrif

Nú þegar hafa T-frumur verið nýttar í baráttunni við blóðkrabbamein, þó ekki á Íslandi. 

„Þetta er ekki alveg nýtt fyrir okkur. Á allra síðustu árum hefur aðferð þar sem gen er sett inn í ákveðna T-frumu verið í þróun. Það breytir eiginleikum hennar og fær hana til að ráðast á mjög ákveðna tegund frumna. Því hefur verið beitt, þó ekki hér á landi, í ákveðinni gerð hvítblæðis og eitlakrabbameina hjá ákveðnum hópi einstaklinga. Það er mjög sérhæfð og kostnaðarsöm aðferð sem getur haft alvarlega fylgikvilla í för með sér,“ segir Signý.

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Niðurstöður rannsóknarinnar hafa fengið mikla athygli enda segja þær til um að mögulega sé hægt að nota aðferðina í baráttunni við öll krabbamein. Signý segir að allt of snemmt sé að segja til um það hvort baráttan við krabbamein sé þá í raun unnin, ef rétt reynist. 

„Auðvitað hafa reglulega komið upp tilraunir í gegnum tíðina sem ekkert hefur kannski orðið úr en þetta eru grunnrannsóknir sem eru gerðar á tilraunastofum og hafa ekki verið gerðar á mönnum. Það er mikilvægt að undirstrika að þetta eru bara grunnrannsóknir og það eru mörg ár í að við getum sagt til um hvort þetta muni hafa einhver áhrif á meðferðarmöguleika við krabbameinum í framtíðinni.“

Sérhæfðar og kostnaðarsamar aðferðir

Eins og áður segir hafa T-frumur ekki verið notaðar í baráttunni við krabbamein hérlendis. Signý segir þó að íslenska heilbrigðiskerfið sé ágætlega fljótt að taka upp nýstárlegar aðferðir í baráttunni við krabbamein. 

„Þetta er auðvitað alltaf spurning um kostnað. Það á ekki bara við um Ísland heldur líka nágrannalöndin. Svona aðferðir eins og eru þarna á ferðinni eru mjög sérhæfðar og kostnaðarsamar. Þessar niðurstöður eru vissulega eitthvað sem undirstrikar það hvað það er mikilvægt að við förum að hugsa út í það hvað við erum tilbúin í að setja mikið í meðferðir þegar þær eru orðnar svona sérhæfðar, þróaðar og dýrar. Hvað samfélagið er tilbúið að leggja í þetta.“

mbl.is