Tíðindi gætu borist úr Efstaleiti í næstu viku

Stjórn RÚV hefur gefið það út að stefnt sé að …
Stjórn RÚV hefur gefið það út að stefnt sé að því að ljúka ráðningu á nýjum útvarpsstjóra í lok þessa mánaðar. mbl.is/Eggert

Mögulega er einhverra tíðinda að vænta í næstu viku um það hver verður næsti útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins. Þetta segir Kári Jónasson, stjórnarformaður RÚV, í samtali við mbl.is, spurður út í það hvernig vinnsla umsókna gangi.

Kári segist þó ekki geta lofað því að gengið verði frá ráðningu í næstu viku, vinnan við úrvinnslu og mat umsókna sé mikil og standi enn yfir, enda voru umsækjendur fjörutíu og einn talsins.

Capacent er stjórn RÚV til ráðgjafar í ráðningarferlinu og segir Kári að vinnan gangi vel, en hann sagðist ekkert geta tjáð sig nánar um það hvar menn væru staddir í ferlinu. Stjórn RÚV hefur gefið það út að stefnt sé að því að ljúka ráðningu á nýjum útvarpsstjóra í lok þessa mánaðar.

Eins og frægt hefur orðið var tekin ákvörðun um að halda leynd yfir því hverjir sóttu um stöðuna, en þær Elín Hirst, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Svanhildur Hólm Valsdóttir og Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir hafa allar staðfest umsókn sína um starfið í samtali við fjölmiðla.

mbl.is