„Afgerandi meirihluti er gegn götulokunum“

Í greininni svarar Bolli viðtali við Guðrúnu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Kokku, …
Í greininni svarar Bolli viðtali við Guðrúnu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Kokku, í ViðskiptaMogganum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Afgerandi meirihluti er gegn götulokunum. Af þessum 247 aðilum sem skrifuðu undir eru yfir 40 horfnir á innan við einu ári ásamt nokkrum sem skrifuðu ekki undir.“

Þetta skrifar Bolli Kristinsson í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, sem ber yfirskriftina „Ertu ekki að gleyma einhverju, Guðrún í Kokku?“.

Í greininni svarar Bolli viðtali við Guðrúnu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Kokku, í ViðskiptaMogganum. Bolli segir Guðrúnu gera lítið úr áralangri baráttu kaupmanna gegn lokunum gatna, sem hafi stórskaðað rekstur og valdið því að mikill fjöldi verslana og veitingahúsa hafi lagt upp laupana eða flust annað.

Nokkrar niðurstöður úr könnun Miðborgarinnar okkar og Samtaka verslunar og …
Nokkrar niðurstöður úr könnun Miðborgarinnar okkar og Samtaka verslunar og þjónustu.

Hér að neðan má lesa grein Bolla í heild sinni:

Í liðinni viku birtist í ViðskiptaMogganum viðtal sem var með hreinum ólíkindum. Þar var rætt við Guðrúnu Jóhannsdóttur, sem kennd er við verslunina Kokku á Laugavegi, en hún er jafnframt formaður Miðborgarinnar okkar. Þar heggur sá er hlífa skyldi en í viðtalinu ræðst Guðrún með offorsi á fjölda kaupmanna, raunar afgerandi meirihluta kaupmanna við Laugaveg, Skólavörðustíg og Bankastræti, og gerir lítið úr áralangri baráttu þeirra gegn lokunum gatna sem hafa stórskaðað rekstur og valdið því að mikill fjöldi verslana og veitingahúsa hefur lagt upp laupana ellegar flust annað þar sem aðgengi er gott og næg bílastæði.

Í viðtalinu kemur fram að Guðrún álítur mótmæli afgerandi meirihluta rekstraraðila gegn götulokunum sem „reglulegar upphrópanir örfárra kaupmanna“. Konu sem ber titilinn formaður Miðborgarinnar okkar stæði nær að hlusta á raddir meginþorra kaupmanna sem hafa tekið afgerandi afstöðu gegn götulokunum. Málflutningur Guðrúnar er sem endurómur úr Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem tekin hefur verið einarðleg afstaða gegn kaupmönnum í miðbænum og rekstri þeirra.

Í grein Guðrúnar kemur fram að 60 nýir aðilar hafi nýverið tekið til starfa á svæðinu. Þessir 60 aðilar eru hvorki við Laugaveg né Skólavörðustíg. Þarna er farið með hrein ósannindi. Hér er í engu getið þeirra sem hætt hafa starfsemi á síðasta ári eða flutt sig annað. Okkur langar að beina orðum beint að Guðrúnu: Veistu hversu margir rekstraraðilar hurfu af svæðinu á síðasta ári? Voru þeir 70 eða 100? Jafnvel fleiri? Nei, þú kýst að geta þeirra í engu. Væntanlega vegna þess að það hentar ekki málstað borgaryfirvalda.

Á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs stóð Miðbæjarfélagið í Reykjavík (ekki það sama og Miðborgin okkar) fyrir undirskriftasöfnun þar sem lokunum gatna var mótmælt. Undir listana rituðu 247 rekstaraðilar af Laugavegi, Bankastræti, Skólavörðustíg og allra næsta nágrenni, eða rúmlega 90% þeirra sem tóku afstöðu. Afgerandi meirihluti er gegn götulokunum. Af þessum 247 aðilum sem skrifuðu undir eru yfir 40 horfnir á innan við einu ári ásamt nokkrum sem skrifuðu ekki undir. Hversu margir skyldu enn vera hér starfandi ef á okkur hefði verið hlustað og látið af lokunum gatna?

Þar sem niðurstaða undirskriftasöfnunarinnar var hvorki þér né borgaryfirvöldum að skapi beittir þú þér fyrir því að Miðborgin okkar léti gera sína eigin könnun. Til þess að gefa þeirri könnun aukið vægi voru Samtök verslunar og þjónustu fengin í samstarf. Nú skyldi þessi háværi „minnihluti“ fá það óþvegið! Zenter-rannsóknir voru fengnar til verksins og könnunin stóð yfir frá 9. maí til 7. júní.

Niðurstöðurnar voru algjörlega á skjön við það sem stjórnendur borgarinnar og þín samtök höfðu vænst og var niðurstaðan í takt við okkar könnun. Afgerandi meirihluti rekstraraðila leggst gegn götulokunum í heildina. Aðeins rekstrarðilar á Hafnartorgi, í Kvosinni og á Granda vilja göngugötur. Ætli þeir vilji láta loka götum fyrir framan hjá sér – eða vilja þeir bara loka götum annars staðar?

Ekki urðum við mikið vör við að niðurstöður þessarar könnunar væru kynntar opinberlega enda hvorki þér né borgaryfirvöldum að skapi. Ætlar Miðborgin okkar ekki að taka mark á niðurstöðunni? Til hvers var eiginlega farið út í gerð þessarar könnunar? Hvers konar stjórn er þetta hjá Miðborginni okkar sem hunsar vilja þeirra sem þeir segjast vera að vinna fyrir? Eru það hagsmunir stjórnenda Reykjavíkurborgar sem þið eruð að gæta?

Hvernig getur svona stjórn og formaður Miðborgarinnar okkar starfað í andstöðu við afgerandi vilja rekstraraðila?

Já, við bara spyrjum!

Grein Bolla er skrifuð fyrir hönd Verslunarinnar Brynju, Herrafataverslunar Guðsteins, Gleraugnamiðstöðvarinnar, Vinnufatabúðarinnar, Kós leðurs, Dúns og fiðurs, Dimmulimmar, Litlu jólabúðarinnar, Litlu gjafavörubúðarinnar, Jóns og Óskars, Stellu, Hárskera almúgans, Vitans, Mónakó, Gleraugnasölunnar L-65, Rossopomodoro, Íslandsapóteka, Stefáns Boga, Metal design og Önnu Maríu Design.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert