Áttunda lokunin frá áramótum

Allt millilandaflug um Keflavíkurflugvöll hefur legið niðri í dag. Alls hefur þurft að aflýsa 94 flugleggjum í dag en lokunin var sú áttunda á árinu. Áhrifanna gætir víða og Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir ljóst að lokanirnar séu langt umfram það sem nokkur maður hafi gert ráð fyrir.  

„Auðvitað hlýtur ferðaþjónustuaðili sem gerir út á veturna að gera ráð fyrir einhverjum svona breytingum á milli daga, en það að það séu átta dagar það sem af er árinu er örugglega langt umfram það sem nokkur maður hefur gert ráð fyrir og við verðum bara að vona að það sé eitthvert lát á þessu,“ segir Skarphéðinn í samtali við mbl.is.

Í myndskeiðinu er rætt við Skarphéðin ásamt þeim Kristjáni Sigurjónssyni, ritstjóra hjá Túrista.is, og Ómar Valdimarsson, lögmann hjá Flugbótum.is.

Mikið hefur verið haft samband við flugbætur.is að undanförnu en Ómar segir þó að flugfélögin séu ekki bótaskyld falli flug niður vegna veðurs. Hins vegar þurfi þau að standa straum af umtalsverðum kostnaði vegna aflýstra flugferða. Þá á eftir að koma farþegum á áfangastað. Í öllu falli er ljóst að dagar eins og í dag eru flugfélögunum dýrir. Þau gera þó ráð fyrir þeim í sínum áætlunum. 

Frá því í október hefur Keflavíkurflugvelli verið lokað ellefu sinnum þegar veðurskilyrði hafa verið líkleg til þess að hafa áhrif á afgreiðslu flugvéla á flugvellinum. Síðasta vetur urðu slíkir dagar 17 í heildina en einungis tvisvar sinnum lengur en í 9 klukkustundir. Það er því ekki ólíklegt að í heildina gætu lokunardagar í vetur orðið talsvert fleiri en þeir urðu síðasta vetur, og mögulega fleiri en flugfélögin hafi gert ráð fyrir.

Kristján segir að þetta gæti haft áhrif á áætlanir félags á borð við Norwegian sem sé ekki með áhafnir staðsettar á Íslandi og viðbrögð við lokunum því umfangsmeiri í þeirra tilfelli en til að mynda hjá Icelandair.

Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að félagið hafi þurft að aflýsa 200 brottförum frá því í október. Þar af eru 130 í janúar og 50 í dag. 

Uppfært 24.01.20:

Eftirfarandi ábending hefur borist frá Isavia tengd fréttinni: „Frá því í október hafa ellefu sinnum komið upp veðurfarslegar aðstæður þar sem landgangar hafa verið teknir úr notkun eða flugþjónustufyrirtæki hafa ekki notað stigabíla. Flugfélög hafa þá tekið ákvörðun um að fresta, flýta eða aflýsa ferðum um Keflavíkurflugvöll.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert