Fjarri raunverulegum launum hjúkrunarfræðinga

Hjúkrunarfræðingar segja tölurnar í engum takti við raunveruleikann. Mynd úr …
Hjúkrunarfræðingar segja tölurnar í engum takti við raunveruleikann. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tilgangurinn með framsetningu þessara launatalna er algerlega óljós,“ segir í yfirlýsingu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem segir nýjasta útspil heilbrigðisráðherra ekki til þess fallið að gera kjarasamningaviðræður auðveldari.

Yfirlýsinguna senda hjúkrunarfræðingar frá sér vegna skriflegs svars Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Maríu Hjálmarsdóttur, varaþingmanni Samfylkingarinnar, um launamun hjúkrunarfræðinga eftir því hvar þeir starfa. Af svari Svandísar má m.a. lesa að hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum hafi að meðaltali 688.494 krónur í grunnlaun og hæstu meðallaun hjúkrunarfræðinga séu 1,7 milljónir.

Hjúkrunarfræðingar segja tölurnar í engum takti við raunveruleikann.

„Launatölurnar virðast vera settar fram með launatengdum gjöldum og miðaðar við fullt starf. Þær eru því fjarri þeim launum sem hjúkrunarfræðingar eru raunverulega með. Hjúkrunarfræðingar eru að meðaltali í 71% starfshlutfalli hjá ríkinu og eru fæstir í fullu starfi. Enginn fyrirvari er gerður við framsetningu talnanna, forsendur eða fjölda á bak við meðaltöl,“ segir í yfirlýsingu frá Fíh.

Þá mótmælir Fíh tímasetningu og aðferðafræðinni sem notuð er til að koma upplýsingunum á framfæri, en í yfirlýsingunni segir að lítið hafi heyrst frá íslenskum stjórnvöldum um raunverulegar lausnir við vanda íslenska heilbrigðiskerfisins þegar komi að skorti á hjúkrunarfræðingum, sem hafi verið kjarasamningslausir í 10 mánuði og hægt þokist í viðræðum.

„Vandi íslenska heilbrigðiskerfisins er öllum ljós en lausnin virðist hins vegar vera víðs fjarri. Fíh óskar eftir vandaðri vinnubrögðum frá íslenskum stjórnvöldum þegar kemur að því að finna lausnir sem tryggja að hægt sé að halda uppi heilbrigðisþjónustu á Íslandi í framtíðinni. Stór hluti af því er að bæta kjör, vinnutíma og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.“

mbl.is