Hæstu heildarlaunin 1,7 milljónir að meðaltali

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. mbl.is/Sigurður Bogi

Hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum eru að meðaltali með 688.494 krónur í grunnlaun samkvæmt svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Maríu Hjálmarsdóttur, varaþingmanni Samfylkingarinnar, um launamun hjúkrunarfræðinga eftir því hvar þeir starfa. Talan sýnir grunnlaun allra hjúkrunarfræðinga óháð því hvort þeir starfa sem stjórnendur, sérfræðingar eða hafa ekki slíkum skyldum að gegna.

Meðallaunin lækka verulega ef aðeins er miðað við hjúkrunarfræðinga sem ekki starfa sem stjórnendur eða sérfræðingar og eru þá 518.578 krónur. Sé horft til heildarlauna, þar sem yfirvinna og vaktaálag er tekið með í reikninginn, eru meðallaun hjúkrunarfræðinga í heild á Landspítalanum 1.274.770 krónur samkvæmt svarinu en 1.005.930 krónur ef aðeins er miðað við þá hjúkrunarfræðinga sem ekki eru stjórnendur eða sérfræðingar.

Tölur eru einnig að finna í svarinu varðandi Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnanir Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands, Austurlands, Suðurlands og Suðurnesja. Grunnlaun eru þar á bilinu 638.954 — 729.991 krónur að meðaltali fyrir alla hjúkrunarfræðinga. Lægst eru launin á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en hæst á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Bilið er 483.479 — 632.150 krónur ef aðeins er miðað við þá sem ekki eru stjórnendur eða sérfræðingar. Lægst eru launin á Heilbrigðisstofnun Austurlands en hæst á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Lægst á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Horft til heildargrunnlauna er launabilið að meðaltali hjá öllum hjúkrunarfræðingum á umræddum stofnunum 970.762 — 1.550.734 krónur. Lægst á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hæst á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Sé einungis litið til hjúkrunarfræðinga sem sinna ekki störfum stjórnenda eða sérfræðinga er launabilið 756.830 — 1.710.228 krónur. Að sama skapi lægst á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hæst á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

„Þó að launaþróun stofnana hafi verið með mismunandi hætti í gegnum tíðina eru eðlilegar skýringar á launum og launasetningu hjúkrunarfræðinga hjá stofnununum,“ segir enn fremur í svari ráðherrans. „Staðbundnir þættir og áherslur stofnana geta að einhverju leyti skýrt þann launamun sem er á milli stofnananna í dag.“

Uppfært: Heilbrigðisráðuneytið gerði mistök við vinnslu svarsins þar sem launatengd gjöld voru tekin með í launatölurnar.

mbl.is