Hefði verið hræðilegt að fara fyrir dóm

Landspítalinn hafði viðurkennt mistökin, því var þetta spurning um að …
Landspítalinn hafði viðurkennt mistökin, því var þetta spurning um að ná samkomulagi um fjárhæð, að sögn Láru. mbl.is/Árni Sæberg

„Það sem skiptir máli fyrir fólk er að enda svona hluti. Það er ekki hægt að hanga í þessu svona lengi og því ágætt að þessu máli sé lokið,“ segir Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður hjónanna Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur og Karls Olgeirssonar, sem misstu nýfæddan son sinn árið 2015 vegna mistaka starfsfólks á fæðingardeild Landspítalans.

Ríkislögmaður féllst á það fyrr í vikunni að greiða hjónunum fimm milljónir króna í miskabætur og 1,8 milljónir í málskostnað vegna málsins, en spítalinn hafði áður viðurkennt mistökin.

Málið hef­ur velkst um í kerf­inu í fimm ár og hefur lög­regl­an rann­sakað það frá haust­inu 2016. Í sept­em­ber síðastliðnum stefndi lögmaður hjón­anna Land­spít­al­an­um til greiðslu miska- og skaðabóta vegna at­viks­ins og hóf­ust samn­ingaviðræður snemma á þessu ári.

Lára segir niðurstöðuna í málinu byggða á nokkurra ára gömlu dómafordæmi í sambærilegu máli. „Miskabætur eru ekki háar á Íslandi, en það var til fordæmi sem hægt var að vísa til og það náðist samkomulag um það. Það er ástæðan fyrir þessari niðurstöðu. Jafnvel þótt maður sé að sjá miklu hærri bætur í málum sem manni finnst ekki eins svakaleg og þetta,“ útskýrir Lára.

„Það lá fyrir hjá spítalanum viðurkenning á mistökunum, þannig að það var ljóst að miskabótaskylda var viðurkennd. Þetta var því bara spurning að finna einhverjar fjárhæðir,“ bætir hún við.

„Það hefði verið hræðilegt ef það hefði þurft að fara með málið fyrir dómstól eftir allt þetta áfall. Standa frammi fyrir dómi til að setja fram einhverjar kröfur. Þegar á allt þetta er litið þá held ég að allir séu sæmilega sáttir. Stóra málið er hins vegar þetta hræðilega slys sem varð og peningar bæta það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert