Ísland í 11. sæti spillingarlista

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

Spillingarvísitala Transparency International (CPI 2019) er komin út, en um er að ræða samanburðarkönnun á því hversu vel varin lönd eru gegn spillingu. Vísitalan þykir að þessu sinni sýna hversu erfitt er að uppræta kerfislæga spillingu, því litla sem enga breytingu er að finna á spillingarvísum flestra landa milli ára, segir í fréttatilkynningu.

„Ísland færist upp um þrjú sæti frá því í fyrra, í 11. sætið af 180 mældum löndum, en of snemmt er að fullyrða um hvort það sé merki um að landið hafi tekið sig á í málaflokknum og hert löggjöf og aukið eftirlit með þáttum eins og hagsmunaárekstrum, vina- og frændhygli, fjárstyrkjum til stjórnmálaflokka, mútugreiðslum íslenskra fyrirtækja erlendis, o.s.frv., eða hvort önnur lönd hafi einfaldlega færst til og Ísland því hlutfallslega einnig.

Sem fyrr verma enn hin Norðurlöndin efstu sætin, með Danmörku, Noreg, Finnland og Svíþjóð meðal þeirra 10 efstu,“ samkvæmt fréttatilkynningu.

Að sögn Transparency International sýna niðurstöður CPI svo ekki verði um villst að koma þurfi böndum á þau áhrif sem fjámálaöfl hafi á stjórnmál einstakra landa og viðskipti milli ríkja. Spillingarvísitalan leiði ítrekað í ljós að spillingin sé mest í ríkjum þar sem einkafjármagn á greiðan aðgang að frambjóðendum í opinberum kosningum og í löndum þar sem stjórnvöld hafi tilhneigingu til að gæta helst hagsmuna hinna auðugu og vel tengdu, að því er segir í tilkynningu.

Í fréttatilkynningu Transparency International segir formaður samtakanna, Delia Ferreira Rubio: „Til að berjast gegn spillingu þurfa stjórnvöld að sporna við áhrifum fjársterkra aðila, sem í krafti fjármagns síns hafa of mikil mótandi áhrif á stjórnmálakerfið í heild sinni, og í staðinn leitast við að draga fram og fara eftir vilja umbjóðenda sinna, almennings, í stefnumörkun sinni.”

Spillingarvísitala Transparency International er byggð á áliti sérfræðinga sem og almennri skynjun á spillingu í opinberum stofnunum og stjórnsýslu. Ekkert land getur talist alfarið laust við spillingu en ýmis sameiginleg einkenni í opinberri stjórnskipun má finna í löndum sem hljóta flest stig, s.s. fjölmiðlafrelsi, borgaralegt frjálslyndi og sjálfstætt dómskerfi.

Þar er líka stjórnsýslan opin og almenningur getur dregið stjórnendur til ábyrgðar. Einkennandi fyrir löndin sem eru neðst á listanum eru: refsileysi við spillingarbrotum, veik stjórnskipan og máttlitlar stofnanir, sem sinna ekki hlutverki sínu í þágu borgaranna. Þá eru mútur (greiðsla sem og þægni) jafnframt viðteknar og látnar óátaldar í þessum löndum.

Spillingarvísitalan nær að þessu sinni yfir 180 lönd, og tekur gildin 0, eða „mjög spillt”, upp í 100, eða „mjög lítið eða ekkert spillt”. Tveir þriðju landanna fengu 50 stig eða færri, en meðaltalið fyrir öll löndin var aðeins 43 stig. Hlaut Ísland 77 stig, einu stigi meira en árið á undan. Nýja-Sjáland og Danmörk lentu í efsta sæti og eru því talin minnst spilltu lönd heims, með 87 stig, en Sómalía (15), Suður-Súdan, og Sýrland lentu í neðstu sætunum með 9, 12 og 13 stig. Á síðustu átta árum hafa aðeins 22 ríki náð að brjótast upp listann með talsverðum umbótum í baráttunni gegn spillingu, svo sem Grikkland, Gæjana (Guyana) og Eistland. Hins vegar hefur 21 ríki fallið niður listann á sama tímabili með afgerandi hætti, svo sem Kanada, Ástralía og Níkaragúa. Hin 137 löndin hafa ekki náð að umbreyta viðhorfi til spillingar heima fyrir svo að nokkru nemi á sama tímabili.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér í kjölfar Panama-skjalanna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér í kjölfar Panama-skjalanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland fær sérstaka umfjöllun vegna Samherjamálsins

„Þrátt fyrir það áfall sem almenningur varð fyrir þegar sjónvarpsþátturinn Kveikur upplýsti áhorfendur um gögn sem bentu til þess að stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Samherji, hefði borið fé á háttsetta og vel tengda embættismenn í Namibíu í skiptum fyrir sérafgreiðslu á viðamiklum fiskveiðiheimildum síðastliðið haust, færist Ísland upp um þrjú sæti og eitt stig frá CPI 2019 og lendir því í 11. sæti 2020, með alls 77 stig.

Transparency-samtökin veittu því sérstaka eftirtekt að Íslendingar eru meðal þeirra þjóða er sýnt hafa vanþóknun sína á spilltum stjórnarháttum æðstu valdhafa landsins á götum úti. Tugþúsundir landsmanna tóku þátt í mótmælum fyrst eftir bankahrunið árið 2008-2009 sem lauk með afsögn ríkisstjórnar Geirs H. Haarde.

Þá mótmæltu einnig tugþúsundir manna hagsmunaárekstrum og aflandsviðskiptum forsætisráðherrans Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar og innanríkisráðherrans Ólafar Nordal, sem opinberuðust í Panama-skjölunum árið 2016, sem leiddi til afsagnar forsætisráðherra.

Samherjamálið hefur einnig vakið hneykslan fólks og leitt til mótmælaaðgerða á opinberum vettvangi í Reykjavík, sem m.a. fólu í sér kröfu um afsögn núverandi sjávarútvegsráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem skv. orðum forstjóra Samherja í gögnum Kveiks var lýst fyrir Namibíumönnum sem „okkar manni” í ríkisstjórn.

Sú krafa mótmælenda endurspeglar áherslur Transparency International sem og Íslandsdeildar samtakanna árið 2020, að úthýsa þurfi áhrifum auðræðis í opinberri stefnumótun og að hún fái að mótast fremur af ákalli almennings í þágu almannahagsmuna. Markverð breyting þykir því hafa orðið á viðhorfi fólks til spillingar á Íslandi frá því á árunum fyrir hrun.

Á árunum 2005 og 2006 var Ísland í 1. sæti CPI-listans, með 95-97 stig. Á árinu 2008 féll Ísland niður í 7. sætið og niður fyrir 90 stiga múrinn. En síðastliðin 10 ár hefur leiðin legið niður á við. Árið 2018 féll Ísland niður í 14. sæti, með aðeins 76 stig,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert